Fara í efni
Íþróttir

Bæði KA-liðin í blaki í bikarúrslitahelgina

Karlalið KA í blaki. Mynd af Facebook síðu félagsins.

Bæði kvenna- og karlalið KA hafa tryggt sér sæti í úrslitahelgi bikarkeppninnar í blaki, Kjörísbikarsins, um aðra helgi. Kvennaliðið sigraði Völsung 3:0 á Húsavík á föstudagskvöldið og í gær sótti karlaliðið HK heim í Kópavogi og vann 3:1.

Þrjú kvennalið hafa tryggt sér sæti fjögurra liða úrslitum, KA, HK og Afturelding, og í kvöld kemur í ljós hvort Blakfélag Hafnarfjarðar eða Álftanes verður fjórða liðið. 

Í karlaflokki eru það KA, Þróttur úr Fjarðabyggð, Hamar og Stál-Úlfur sem taka þátt í úrslitahelginni.

Undanúrslit kvenna fara fram fimmtudaginn 15. febrúar og undanúrslit karla föstudaginn 16. febrúar. Báðir úrslitaleikirnir eru síðan á dagskrá laugardaginn 17. febrúar. Allir þessir leikir verða sýndir beint á RÚV.

Kvennalið KA í blaki. Mynd af vef félagsins.