Bæði hokkílið SA með fyrsta heimaleik í dag
Íshokkívertíðin er hafin fyrir nokkru og bæði kvenna- og karlalið Skautafélags Akureyrar búin að sækja þrjú stig suður yfir heiðar í fyrsta leik. Í dag er komið að fyrstu heimaleikjunum og verður svokallaður tvíhöfði í Skautahöllinni þegar SA-liðin taka á móti liðum Skautafélags Reykjavíkur.
Kvennalið SA og SR hefja leik kl. 16:45. Eins og áður hefur komið fram í umfjöllun á Akureyri.net má búast við jafnara móti í vetur en oft áður. Ekki aðeins er Íslandsmeistarabikarinn nú sunnan heiða heldur hefur SR styrkt lið sitt nokkuð með öflugum hokkíkonum frá Akureyri. Tveimur leikjum er lokið á Íslandsmóti kvenna, Topp-deildinni eins og mótið heitir þennan veturinn. SR tapaði naumlega fyrir Fjölni í fyrsta leik, 0-2, og SA vann Fjölni 2-1 syðra.
Karlalið SA og SR bíða átekta á meðan konurnar mætast, en karlarnir hefja leik kl. 19:30. Bæði liðin hafa nú þegar mætt liði Fjölnis í Grafarvoginum og haft sigur í miklum markaleikjum. Lokatölur í leik Fjölnis og SR urðu 5-9 í fyrstu umferðinni og svo 3-7 í leik Fjölnis og SA. Reykvíkingarnir í SR eru ríkjandi Íslandsmeistarar, hafa unnið titilinn tvö ár í röð í úrslitakeppni eftir að SA hafði unnið deildarkeppnina.
- Kl. 16:45, Topp-deild kvenna: SA - SR
- Kl. 19:30, Topp-deild karla: SA - SR