Íþróttir
Aukinn stuðningur við frjálsíþróttaviðburði
19.02.2023 kl. 06:00
Gleðin er jafnan við völd þegar leikskólabörn bæjarins þreyta 1. maí hlaup UFA. Þessi voru meðal þeirra sem hlupu á síðasta ári. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Á dögunum var undirritaður nýr styrktarsamningur Akureyrarbæjar við Ungmennafélag Akureyrar með það að markmiði að styðja við umgjörð og framkvæmd UFA á árlegum frjálsíþróttaviðburðum á Akureyri og auka um leið þátttöku grunnskólabarna og almennings í frjálsum íþróttum.
Viðburðirnir sem samningurinn nær til eru:
- 1. maí hlaup UFA sem er m.a. keppni á milli grunnskóla og framhaldsskóla um hlutfallslega þátttöku. Í skólakeppninni geta krakkarnir valið um að hlaupa 2 eða 5 km og 5 km hlaupið er einnig opið öðrum keppendum. Þar að auki er boðið upp á leikskólahlaup þar sem leikskólakrakkar hlaupa til gamans einn hring á vellinum en ekki er um eiginlega keppni að ræða. Leik- og grunnskólanemendur á Akureyri geta skráð sig endurgjaldslaust í 1. maí hlaup UFA ef skráning er gerð í forskráningu.
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri og Arnar Elíasson formaður UFA. Mynd af vef Akureyrarbæjar.
- Grunnskólamót UFA sem er haldið í Boganum í maí fyrir nemendur í 4.-7. bekk. Mótið fer fram á skólatíma og mæta krakkarnir til keppni með kennurum sínum. Keppt er í stigakeppni í hverjum árgangi og samanlagt.
- Akureyrarhlaupið sem er haldið á fimmtudagskvöldi í byrjun júlí, eina mestu ferðahelgi ársins á Akureyri þegar þúsundir manna flykkjast í bæinn til að taka þátt í fótboltamótum. Keppt er í þremur vegalengdum: 5, 10 og 21,1 km. Brautin er flöt og því vænleg til góðra afreka og hafa margir hlauparar náð sínum besta tíma í 10 km hlaupi og hálfmaraþoni í Akureyrarhlaupinu.