Fara í efni
Íþróttir

Aron frá Al-Arabi – hjartnæmt kveðjuviðtal

Myndir af Instagram reikningi Al-Arabi í dag.

Knattspyrnumaðurinn Aron Ein­ar Gunn­ars­son er á förum frá Al-Ar­abi í Katar. Landsliðsfyrirliðinn hefur verið á mála hjá félaginu í fimm ár en  tilkynnt var í dag að komið væri að kveðjustund.

Félagið birti hjartnæmt kveðjuviðtal við Aron á samfélagsmiðlinum X (áður Twitter). Þar ræddi hann um tímann í Katar; sagði m.a. að markmiðið hefði frá upphafi verið að koma félaginu þangað sem það ætti heima – í baráttu um bikara, og sigur í Emír-bikarkeppninni á síðasta ári væri ógleymanleg stund.

En lífið er sannarlega ekki bara dans á rósum. „Ég missti systur mína og glímdi á sama tíma við slæm meiðsli,“ sagði Aron í viðtalinu. „Það var mjög erfitt.“

Það var fjölskyldunni gríðarlegt áfall þegar Tinna Björg Malmquist Gunn­ars­dótt­ir varð bráðkvödd síðastliðið haust langt fyrir aldur fram, nýorðin fertug, en Aron kveðst hafa fundið fyrir miklum stuðningi frá katarska félaginu og öllum sem því tengjast. Fyrir það væri hann mjög þakklátur.

Aron varð 35 ára í síðasta mánuði. Hann hefur lítið sem ekkert leikið síðasta árið vegna meiðsla og ekki er ljóst hvert leiðin liggur næst. Hann hefur lengi verið orðaður við uppeldisfélagið, Þór, og oft sagst myndu enda ferilinn þar en hvort komið er að þeim tímamótum er ekki vitað.

Smellið á myndina hér að neðan til að sjá myndbandið