Fara í efni
Íþróttir

Aron Einar semur við Þór til tveggja ára

Aron Einar Gunnarsson eftir blaðamannafundinn í Hamri í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu til fjölda ára, er kominn aftur heim í Þór og hefur samið til tveggja ára við uppeldisfélag sitt. Nær öruggt er að Aron verði lánaður til erlends félags í vetur en hann ætti að ná sex leikjum með Þór þangað til félagskiptaglugganum verður lokað. Aron stefnir síðan að því að ljúka ferlinum með Þór næsta sumar.

Fjöldi Þórsara lagði leið sína í félagsheimilið Hamar síðdegis þar sem koma Arons var tilkynnt. Þeir voru augljóslega spenntir og Aron ekki síður. „Ég er mjög stoltur og ánægður með að vera kominn heim og verð að viðurkenna að ég fékk gæsahúð þegar ég keyrði upp Skarðshlíðarbrekkuna!“ sagði hann í dag; brekkan sú arna er á leiðinni frá heimili foreldra Arons við Lönguhlíð að Þórssvæðinu.

Belgía eða Katar?

Aron, sem er 35 ára, segir nokkra möguleika í stöðunni varðandi veturinn. Belgíska félagið Kortrijk, sem Freyr Alexandersson þjálfar, var m.a. nefnt fyrr í dag, Aron segir einnig hugsanlegt að honum bjóðist að fara aftur til Katar, þar sem hann hefur leikið síðustu ár, og útilokar ekki fleiri möguleika.

Þór leikur í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins. Næsti leikur er gegn Njarðvík á heimavelli annan laugardag, 10. ágúst, og skv. Aroni og Sigurði Höskuldssyni þjálfara er öruggt að Aron tekur einhvern þátt í þeim leik. Aron lék í mörg í stöðu varnarsinnaðs miðjumanns en einnig í hjarta varnarinnar í nokkur misseri áður en hann meiddist. Sigurður þjálfari segir ekki ákveðið hvar Aroni verði stillt upp í Þórsliðinu, hvort tveggja komi til greina.

Öllum er þó ljóst að reynsla hans og leiðtogahæfileikar eiga eftir að nýtast vel, hvar sem hann verður á vellinum, svo og á æfingum.

Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Þórs, Aron Einar Gunnarsson og Sveinn Elías Jónsson formaður knattspyrnudeildar Þórs kampakátir í Hamri í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Aron fór ekki í launkofa með það markmið að komast aftur í landsliðið. Hann hefur verið lengi frá vegna meiðsla; lék ekkert með Al-Arabi í Katar leiktíðina 2023-2024 og síðasti landsleikur hans, sá 103. í röðinni, var í nóvember 2023. Hásin skaddaðist en Aron fór í aðgerð fyrir nokkrum mánuðum, hann kveðst hafa getað æft vel undanfarið og er bjartsýnn á að komast í gott stand fljótlega.

Til að komast í landsliðið segist Aron, í fyrsta lagi, þurfa að leika erlendis í vetur og í öðru lagi að standa sig vel. Til þess að þjálfarinn velji fyrirliðann segist Aron verða að vera þannig á sig kominn að hann nýtist liðinu, það gefi auga leið. „Ég er ekki bara kominn heim til að hjálpa Þór heldur er Þór líka að hjálpa mér og fyrir það er afar þakklátur.“

Umfjöllun um Aron í nokkrum öðrum fjölmiðlum í dag:

FÓTBOLTI NET

VÍSIR

Aron Einar - „Þetta er fólkið mitt“

433.IS

 

Aron Einar kynntur til leiks hjá Þór í dag