Fara í efni
Íþróttir

Aron Einar kynntur til leiks hjá Þór í dag

Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði fyrir einn leikja Íslands á heimsmeistaramótinu í Rússlandi árið 2018. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnumaðurinn Aron Einar Gunnarsson hefur samið við Þór og verður kynntur sem nýr leikmaður uppeldisfélagsins á opnum blaðamannafundi í Þórsheimilinu Hamri síðdegis í dag.

Fyrsti leikur Arons með Þór verður væntanlega á heimavelli gegn Njarðvíkingum annan laugardag, 10. ágúst. Líkur eru taldar á að hann verði lánaður til erlends liðs seinna í sumar, leiki ytra í vetur en verði síðan til í slaginn með Þórsurum næsta vor. Nefnt er á fotbolti.net að Aron verði hugsanlega lánaður til belgíska félagsins Kortrijk sem Freyr Alexandersson þjálfar.

Aron Einar er 35 ára og einn leikreyndasti knattspyrnumaður þjóðarinnar. Hann hefur leikið sem atvinnumaður erlendis í 18 ár og verið landsliðsfyrirliði í rúman áratug. Aron Einar er fjórði landsleikjahæsti íslenski knattspyrnukarlinn með 103 landsleiki. Hann tók þátt í nokkrum leikjum meistaraflokks Þórs 2005 og 2006, þá 16 og 17 ára, en fór til AZ Alkmar í Hollandi sumarið 2006. Þaðan lá leiðin til Coventry í Englandi, síðan lék hann í átta ár með Cardiff í tveimur efstu deildum í Englandi en árið 2019 samdi Aron við Al-Arabi í Katar og hefur leikið þar síðan.

Aron hefur reglulega lýst því yfir að áður en hann legði skóna á hilluna myndi hann leika með Þór og vangaveltur hafa verið uppi undanfarið um að af því yrði í sumar.

Þórsarar hafa lengi beðið spenntir eftir því að Aron snéri heim á ný. Fundurinn í Hamri í dag hefst klukkan 17.00 og er opinn sem fyrr segir, allir eru velkomnir og má gera ráð fyrir að fjöldi stuðningsmanna Þórs mæti á staðinn. Í fundarboði knattspyrnudeildar Þórs kemur fram að húsið verði opnað kl. 16.30 og að léttar veitingar verði í boði fyrir gesti og gangandi.

Heimasíða Þórs

Aron Einar í leik Þórs og Fjölnis á Akureyrarvelli í ágúst árið 2005. Mynd: Þórir Tryggvason