Arnór Þór vann – þeir Oddur báðir í stuði
Arnór Þór Gunnarsson og félagar í Bergischer unnu Tusem Essen, 36:29, í gærkvöldi í þýsku 1. deildinni í handbolta. „Þetta var var fínt – jólastuð!“ sagði Arnór við Akureyri.net, sigri hrósandi, og fer sæll inn í stutt jólafrí. Hann gerði sjö mörk, flest allra hjá liðinu, þar af þrjú úr víti. Bergischer hefur nú 14 stig eftir 14 leiki og er um miðja deild. Næsti leikur er strax á öðrum degi jóla, gegn TVB Stuttgart á útivelli.
Oddur Gretarsson lék líka mjög vel en varð að sætta sig við tap Balingen - Weilstetten gegn Nordhorn - Lingen á útivelli, 29:27. Hann var einnig markahæstur, gerði átta mörk, þar af sex af vítalínunni. Balingen hefur því enn aðeins sjö stig, nú eftir 15 leiki. Oddur og félagar hafa lokið keppni um sinn og verða raunar ekki í eldlínunni á ný fyrr en í febrúar, að heimsmeistaramótinu loknu.
Þá töpuðu Sveinbjörn Pétursson og samherjar hans í EHV Aue, lærisveinar Rúnars Sigtryggssonar, naumlega á heimavelli, 27:26, fyrir Fürstenfeldbruck. Sveinbjörn lék hálfan leikinn og varði sex skot. Aue er um miðja 2. deildina með 10 stig eftir 10 leiki.