Fara í efni
Íþróttir

Annar Íslandsbikar „lánaður“ suður

Þessi mynd var tekin í Skautahöllinni á Akureyri þegar SA fékk afhentan deildarmeistarabikarinn. Deildarmeistarar SA verða hins vegar að sætta sig við einn bikar. Sá stærri verður fyrir sunnan næsta árið. Ljósmynd: Þórir Tryggva.

Deildarmeistarar SA í íshokkí kvenna máttu fyrr í kvöld sjá á eftir Íslandsbikarnum á loft í Egilshöllinni þegar þær lágu fyrir liði Fjölnis í fjórða leik liðanna í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn.

SA-konur unnu deildarmeistaratitilinn mjög örugglega, meðal annars með því að sigra Fjölni sjö sinnum á móti aðeins einum sigri Fjölnis. En úrslitakeppnin er annars eðlis og þar höfðu Fjölniskonur betur. SA vann fyrsta leikinn á heimavelli, en síðan fylgdu þrír sigrar Fjölnis, fyrst sigur eftir framlengingu og vítakeppni í Egilshöllinni í öðrum leik, síðan 2-1 sigur í Skautahöllinni á Akureyri og svo 1-0 sigur í fjórða leik einvígisins fyrr í kvöld. 

Það er frekar sjaldgæft að aðeins sé skorað eitt mark í hokkíleik, en sú var raunin í kvöld. Fjölnir skoraði eftir þrjár og hálfa mínútu og létu það duga, vörðust sóknum norðankvenna og héldu 1-0 forystunni út leikinn. Það nægði. Að sama skapi náðu liðin einnig mjög fáum skotum á markið, Fjölnir með 15 skot og SA með 13. Karitas Halldórsdóttir var því með 100% markvörslu í kvöld, en Shawlee Gaudreault í marki SA var með 93,3%, varði 14 skot af 15. Heimakonur í Fjölni dvöldu samtals í 12 mínútur í refsiboxinu, en leikmenn SA í átta mínútur.

Fjölnir - SA 1-0 (1-0, 0-0, 0-0)

  • 1-0 Sigrún Agatha Árnadóttir (03:29). Stoðsending: Eva Hlynsdóttir, Kristín Ingadóttir.

Akureyri.net er ekki kunnugt um hvort báðir Íslandsbikararnir hafi verið staddir sunnan heiða á sama tíma áður í sögu Íslandsmótsins, en þykir það afar ólíklegt. Þegar SR vann SA í einvígi karlaliðanna í fyrravor var haft á orði að Íslandsbikarinn hafi verið  „lánaður“ suður enda hefur hann oftast átt heima á Akureyri. Í liði Fjölnis eru reyndar nokkrar akureyrskar hokkíkonur sem hafa unnið titilinn nokkrum sinnum með SA á undanförnum árum. Sunnanliðin hafa þó oftar hampað honum í karlaflokki en kvennaflokki. Skautafélag Akureyrar vann titilinn síðastliðið vor í 17. sinn í röð þannig að nú má segja að sá bikar hafi einnig verið „lánaður“ suður. Ætla má að karlalið SA hafi hug á að endurheimta sinn bikar úr láni á næstu vikum enda ekki við það unandi að þeir verði báðir til lengri tíma sunnan heiða.

Einvígið

  • SA - Fjölnir 3-1
  • Fjölnir - SA 3-2
  • SA - Fjölnir 1-2
  • Fjölnir - SA 1-0

Flestar í liði SA eru kornungar og ef til vill vantaði aðeins upp á reynsluna til að takast á við og klára verkefnið, en hvað sem því líður má klárlega nota klisjuna sem svo oft er gripið til í íþróttum, þó ekki hafi allt gengið upp að þessu sinni: Framtíðin er björt!