Fara í efni
Íþróttir

Andrésarleikar: aldrei fleiri (kepp)endur

49. Andrésar andar leikarnir verða settir í Íþróttahöllinni annað kvöld. Mynd: Pedromyndir

Metþáttaka verður á Andrésar andar leikunum í ár. Þegar þetta er skrifað eru 930 börn frá 18 íþróttafélögum á Íslandi skráð til leiks. Flestir iðkendur koma frá heimamönnum í Skíðafélagi Akureyrar eða 205 keppendur, en Skíðadeild Ármanns er næst fjölmennasta liðið með 102 þátttakendur. Leikarnir hefjast á morgun, miðvikudaginn 23. apríl með skrúðgöngu liðanna og setningarathöfn í Íþróttahöllinni að venju, en þetta rótgróna mót verður sett í 49. skipti á morgun.

Aðstæður í Hlíðarfjalli með ágætum

Skíðaveturinn hefur ekki sá auðveldasti, segir í fréttatilkynningu frá mótsstjórn, en snjóleysi og sunnanáttir víða um land hafa verið skíðaíþróttum steinn í götu. Aðstæður í Hlíðarfjalli eru þó með ágætum, en starfsmenn hafa unnið hörðum höndum við að ýta og flytja til snjó og skapa góðar aðstæður til að leikarnir geti farið fram með eðlilegum hætti.

 

Árið 2012 var fyrst keppt í snjóbrettaíþróttum á Andrésarleikunum, en þáttaka hefur verið stigvaxandi síðan. Myndir: Pedromyndir

Kynning í skíðaskotfimi 

Þátttakendur í alpagreinum eru 677, 184 í skíðagöngu og 97 taka þátt í snjóbrettagreinum. Auk þess eru mörg börn að taka þátt í fleiri en einni grein skíðaíþróttarinnar. Nýlunda í ár er að á leikunum verður kynning á skíðaskotfimi sem hefur verið vaxandi íþrótt á Íslandi undfarin ár, en greinin nýtur mikilla vinsælda víða um heim. 

Nú um nokkurra ára skeið hefur 4 og 5 ára börnum einnig boðið að taka þátt í leikunum. Þessi börn taka þátt í leikjabraut þar sem allt snýst um að vera með og skemmta sér, en ekki að sigra. Fá allir þátttakendur í leikjabraut verðlaun fyrir þátttökuna og allir fara því brosandi heim. Í ár eru 78 börn á þessum aldri skráð til leiks.

Skrúðganga, kvöldvökur og skemmtiatriði

Að venju verða leikarnir settir í Íþróttahöllinni á Akureyri síðasta vetrardag miðvikudagskvöldið 23. apríl kl. 19:30 að lokinni myndarlegri skrúðgöngu allra þátttakenda frá Lundarskóla/Íþróttasvæði KA kl. 19. Fimmtudag, föstudag og laugardag er svo keppt í öllum greinum, auk þess sem yngri þátttakendur fara í leikjabrautir. Veglegar kvöldvökur og verðlaunaafhendingar í Íþróttahöllinni eru í lok hvers keppnisdags.

 

Allir iðkendur, þjálfarar og pepparar mæta í skrúðgönguna og halda sínum fánum hátt á lofti. Mynd: Pedromyndir

Skýringarmynd fyrir skrúðgönguna, fengin á Facebook síðu Andrésarleikanna.

Andrésarleikarnir mikilvægir fyrir bæinn

Andrésarleikarnir eru stærsta skíðamót landsins ár hvert með um 900 keppendur á aldrinum 4-15 ára. Þeim fylgja þjálfarar, fararstjórar, foreldrar og fjölskyldur og má því gera ráð fyrir að um 3-4000 manns sæki leikana með einum eða öðrum hætti. Andrésarleikarnir eru mikilvægur viðburður fyrir alla bæjarbúa, fyrirtækin í bænum, barnamenningu bæjarins, ásamt því að vera stærsti og mikilvægasti einstaki vetraríþróttaviðburður sem fram fer hér á svæðinu á hverju ári, segir í fréttatilkynningunni.

Vakin er athygli á því, fyrir áhugasöm, að líflegur fréttaflutningur verður frá mótinu á Facebook síðu leikanna.