„Alvöru lið eru með lúðrasveit í upphitun“
Árlegt Pollamót Samskipa og Þórs í knattspyrnu hófst í morgun á Þórssvæðinu í Glerárhverfi og þar er gleðin við völd sem fyrr. Þetta er ungt í anda og leikur sér, sagði einn þátttakenda við blaðamann og horfði dreymandi yfir svæðið.
Þarna er á ferð roskið knattspyrnufólk og keppt í fjórum deildum karla og þremur kvennadeildum. Þátttakendur eru um 800, þar á meðal kappar sem gerðu garðinn frægan á árum áður.
Eitt þeirra liða sem jafnan vekur mikla athygli á Pollamótinu er akureyrski hópurinn Ginola. Liðið er skýrt eftir franska knattspyrnukappanum David Ginola, gott ef andlit hans prýðir ekki merki liðsins. Hópurinn hefur oft brugðið á leik en einnig gert góðverk eins og þegar hann safnaði rúmlega einni milljón króna og afhenti MND félaginu á Íslandi á Pollamótinu fyrir nokkrum árum eftir að vinur þeirra greindist með sjúkdóminn.
Lúðrasveit Akureyrar og félagar í Ginola-liðinu fyrir leikinn í dag þar sem leikmenn hituðu upp undir fögrum tónum hljómsveitarinnar!
Að þessu sinni brá svo við að Ginola fékk Lúðrasveit Akureyrar til að mæta á svæðið og lék hún nokkur fjörug lög á meðan liðsmenn hituðu upp fyrir leik eftir hádegið! Engum sögum fer af úrslitum en gárungarnir töldu næsta víst, áður en athöfnin hófst, að hljómsveitin myndi leika betur en liðið!
Ginola-liðar voru stoltir af framtakinu og fleiri höfðu gaman af. „Alvöru lið eru með lúðrasveit í upphitun,“ sagði einn leikmanna Ginola við Akureyri.net og brosti stoltur.
N1 mót KA stendur einnig yfir eins og Akureyri.net hefur áður greint frá. Eftir heldur leiðinlegt veður síðustu daga er nú bærilega hlýtt á Akureyri, hiti um 15 gráður en sólarlaust og á morgun verður sól og enn hlýrra. Báðum mótum lýkur á morgun. Í kvöld verður skemmtun fyrir þátttakendur á N1 mótinu í Íþróttahöllinni en Þórsarar ljúka sínum hátíðahöldum með Pallaballi í Boganum annað kvöld. Þar verður Páll Óskar Hjálmtýsson við völd og heldur uppi stuðinu fram eftir nóttu.
Laufey Elma Ófeigsdóttir og Sara Fönn Jóhannesdóttir, sú dökkklædda, eigast við þegar FC Smice og Búbblurnar mættust í dag.
Þessi ungi piltur, Karel Pétursson (Heiðars Kristjánssonar, knattspyrnumanns og þjálfara) fagnaði innilega þegar hann skoraði fyrir KA á móti ÍBV á N1 móti fimmta flokks.
Lúðrasveit Akureyrar leikur fyrir leikmenn Ginola þegar þeir hituðu upp fyrir leikinn í dag.