Alvaro Montejo fer frá Þór í lok júní
Spænski knattspyrnumaðurinn Alvaro Montejo hjá Þór verður ekki með liðinu nema í fjórum leikjum til viðbótar í sumar – gegn ÍBV, Kórdrengjum og Fjölni í deildarkeppninni, og bikarleik gegn Grindavík.
„Ég vil spila á Spáni á næsta tímabili og mun því halda til Spánar eftir leikinn 26. júní [gegn Fjölni],“ sagði Alvaro við fotbolta.net í dag. Hann hefur komist að samkomulagi við stjórn knattspyrnudeildar Þórs þar um.
Alvaro hefur undanfarna vetur leikið með Union Adarve í heimalandinu, liðið komst í vor upp í C-deild og hann vill taka fullan þátt í undirbúningi þess fyrir næstu leiktíð.
Spænski framherjinn hefur verið markahæstur Þórsara síðustu ár og lykilmaður í liði þeirra. Hann kom til Þórs fyrir leiktíðina 2018 og hefur gert 41 mark í 61 deildarleik, auk tveggja marka í sjö bikarleikjum. Alvaro hefur gert eitt mark í sumar, úr vítaspyrnu í 2:1 sigri á Aftureldingu á heimavelli.