Fara í efni
Íþróttir

Alþjóðlegt mót – fjórir Indverjar taka þátt!

Frá Scandinavian Cup í Hlíðarfjalli í fyrra, mótaröð á vegum Alþjóða Skíðasambandsins (FIS) sem haldið er á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum á hverju ári. Lokamótið fór þá fram í Hlíðarfjalli. Ljósmynd: Ármann Hinrik

Bikarmót SKÍ í skíðagöngu fyrir 13 ára og eldri verður á Akureyri um helgina. Þetta er alþjóðlegt FIS mót og því opið öllum – og gaman að segja frá því að fjórir Indverjar komu gagngert til landsins til þess að taka þátt í mótinu.

Keppendur á mótinu eru 53, þar af eru níu frá Skíðafélagi Akureyrar. Vert er að geta þess að besti skíðagöngumaður Íslands, Snorri Einarsson úr Ulli, verður með um helgina.

Í dag er keppt í sprettgöngu með hefðbundinni aðferð. Á morgun verður keppt með frjálsri aðferð í einstaklingsstarti og á sunnudaginn er keppt með hefðbundinni aðferð með hópstarti.

Keppt verður í brautunum sem notaðar voru við stóra alþjóðlega Scandinavian Cup mótið í mars í fyrra.

    • Keppni dagsins hefst klukkan 18.40, þegar yngstu þátttakendurnir spreyta sig. Fullorðinsflokkur kvenna gengur af stað 19.20 og karlarnir 10 mínútum síðar.
    • Úrslit í yngstu flokkunum hefjast 19.40. Úrslit í kvennaflokki hefjast kl. 20.00 og karlaflokki 20.10.