„Allir með“ er vel heppnað – MYNDIR
Verkefnið Allir með, sem íþróttahreyfingin setti á laggirnar í haust í því skyni að fjölga tækifærum fyrir börn með sérþarfir, þykir afar vel heppnað. Á Akureyri tóku Þór og KA höndum saman, bjóða upp á tíma í íþróttahúsi Naustaskóla alla sunnudagsmorgna klukkan 11.00 og hvetur yfirþjálfarinn sem flest börn til þess að prófa.
Verkefnið fór rólega af stað á Akureyri eins og líklega mátti búast við en þeim börnum sem mæta þykir afar skemmtilegt. Það fór að minnsta kosti ekki á milli mála fyrir viku þegar Akureyri.net leit við. Allir með er fyrir börn frá 6 til 16 ára.
Þorsteinn Helgi Guðmundsson íþróttafræðingur er yfirþjálfari verkefnisins á Akureyri. „Þetta er hugsað fyrir krakka sem finna sig ekki í öðrum íþróttum eða hefur vantað eitthvað til þess að koma sér af stað; hefur vantað vettvang til að stunda íþróttir,“ segir Þorsteinn. Hann leggur áherslu á að allir séu velkomnir. „Krakkar þurfa ekki að vera með sérstaka greiningu eða neitt svoleiðis.“
Þorsteinn Helgi segir nokkurn hóp barna mæta í tímana en pláss sé fyrir fleiri. „Það kostar ekkert að prófa og ef krakkar skrá sig er gjaldið mjög lágt, einungis 15.000 krónur. Hægt er að nota frístundastyrk bæjarins og svo fá allir treyju, þannig að eiginlega má segja að þetta sé næstum því frítt.“
Gert er ráð fyrir að verkefnið standi út veturinn. „Ég hvet alla til að mæta og prófa. Þetta er mjög skemmtilegt og við reynum að koma til móts við alla.“
Boðið er upp á fjölbreyttar íþróttir og leiki. Þjálfarar frá báðum félögum eru í öllum tímum, alltaf er þrautabraut í hluta salarins og síðan eru ákveðnar íþróttagreinar kynntar í hverjum tíma. Fyrir hálfum mánuði komu fótboltamenn í heimsókn og fyrir viku var kynning á körfubolta og þá voru gestaþjálfarar þrír leikmenn úr hinu magnaða kvennaliði Þórs, Maddie Sutton, Eva Wium Elíasdóttir og Emma Karolína Snæbjarnardóttir.
Næsti tími er klukkan 11.00 í dag. Ástæða er til að hvetja börn og foreldra þeirra til að gefa þessu fallega og þarfa verkefni gaum.