Akureyrskt gullregn og mótsmet á Selfossi
Tveir Akureyringar unnu til fernra gullverðlauna hvor á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum 15 til 22 ára sem fram fór á Selfossi um síðustu helgi. Alls unnu keppendur frá Akureyri til 10 gullverðlauna og 21 verðlauna alls.
Glódís Edda Þuríðardóttir úr KFA vann til fernra gullverðlauna í flokki 18 til 19 ára á mótinu og sigraði í öllum þeim greinum með miklum yfirburðum. Þá fékk hún ein bronsverðlaun, fyrir að kasta kúlu 9,90 metra, og varð fjórða í spjótkasti, með 32,39 metra.
Gullverðlaun Glódísar Eddu voru þessi:
- 100 metra grindahlaup 14,00 sekúndur – nýtt mótsmet
- Langstökk – 5,54 metrar
- 200 metra hlaup – 25,39 sekúndur
- 100 metra hlaup – 12,32 sekúndur
Róbert Mackay úr UFA varð einnig Íslandsmeistari í fjórum greinum, í flokki 15 ára. Þá nældi hann sér í bronsverðlaun í langstökki. Róbert bætti sig í öllum greinum á mótinu.
Gullverðlaun Róberts voru þessi:
- 200 metra hlaup – 23,73 sekúndur – nýtt mótsmet
- 100 metra hlaup – 11,64 sekúndur
- 300 metra hlaup – 37,82 sekúndur
- 100 metra grindahlaup – 15,20 sekúndur
Birnir Vagn Finnsson úr UFA varð Íslandsmeistari í tveimur greinum í flokki 18 til 19 ára og hlaut alls fimm einstaklingsverðlaun. Hann fékk silfur í langstökki og brons í bæði kringlukasti og spjótkasti.
Gullverðlaun Birnis Vagns voru þessi:
- 110 metra grindahlaup – 15,36 sekúndur – nýtt mótsmet
- Hástökk – 1,82 metrar
Sigurlaug Anna Sveinsdóttir úr UFA náði silfurverðlaunum í 100 m hlaupi í flokki 16 til 17 ára, hljóp á 12,91 sekúndu, sem er besti tími hennar til þessa. Í 200 m hlaupi varð Sigurlaug í fjórða sæti á 26,77 sek. og í 400 metra hlaupi krækti hún í silfur, einnig á persónulegu meti, 62,27 sek. Í langstökki náði Sigurlaug fjórða sæti með stökki uppá 4,87 m.
Alexander Breki Jónsson, UFA, keppti í kringlukasti 15 ára og náði silfurverðlaunum með kasti uppá 29,82 m. Í sleggjukasti kastaði hann 28,23 m og fékk annað silfur og Alexender Breki nældi svo í brons í spjótkasti með kasti uppá 36,11 m. Alexander hljóp 100 m á 12,60 sek og náði sjötta sæti. Hann setti persónulegt met í öllum greinum.
Aþena Björk Ómarsdóttir, UFA, keppti í flokki 16 til 17 ára; hún hljóp 100 m á 14,69 sek, 400 m grindahlaup á 82,10 sek og spjóti kastaði hún 21,01 m. Aþena bætti sig í öllum greinum, en hún er nýkomin aftur til æfinga eftir nokkurt hlé, að því er segir á heimasíðu UFA.
Tjörvi Leó Helgason, UFA; keppti í fimm greinum í flokki 16 til 17 ára og bætti sig í öllum. Hann hljóp 100 m á 13,00 sek, fór yfir 1,50 m í hástökki, 4,89 m í langstökki, 10,47 í þrístökk og kastaði kringlu 17,66 m.
Alexander Breki, Tjörvi Leó, Róbert Mackay og Birnir Vagn skipuðu sveit UFA í 4×100 metra boðhlaupi pilta og hlutu silfurverðlaun.