Akureyringarnir komu allir sælir í mark
Akureyringarnir fjórir sem kepptu á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum í dag luku allir strembnu, 45 kílómetra fjallahlaupi með 3.500 metra hækkun.
Jörundur Frímann Jónasson og Halldór Hermann Jónsson luku hlaupinu á rúmum fimm og hálfum klukkutíma og voru í 91. og 94. sæti af 190 körlum. Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir og Anna Berglind Pálmadóttir luku hlaupinu rúmum sex klukkutímum og voru í 63. og 67. sæti af 170 konum í keppninni.
Anna Berglind, Sigþóra og Halldór voru öll að taka þátt HM í annað skipti. Sigþóra Brynja og Halldór hlupu í Tælandi í fyrra en Anna Berglind í Portúgal fyrir fjórum árum. Jörundur var að keppa á sínu fyrsta móti en örugglega ekki því síðasta, eins og það var orðað í herbúðum íslenska landsliðsins í dag.
Aðstæður voru Íslendingum fremur hagstæðar í dag, að sögn Rannveigar Oddsdóttur, sem keppir á morgun. Í dag var 15-20 stiga hiti á meðan hlaupið fór fram, en undir lokin fór að rigna.
„Leiðin er krefjandi; langar, brattar brekkur og stígarnir oft tæknilegir og svolítið erfiðir yfirferðar, ekki síst síðasta niðurhlaupið þar sem hlaupið er á ósléttum skógarstígum sem eru sundurskornir af rótum,“ sagði Rannveig. „Það auðveldaði heldur ekki leikinn að farið var að rigna og stígurinn því sleipur að auki. Fór svo að loka þurfti stígnum áður en allir keppendur höfðu lokið keppni en Íslendingarnir voru allir kominir í mark áður en til þess kom.“
- Frétt Akureyri.net fyrr í dag: Sex Akureyringar á HM í utanvegahlaupum
Fjórir aðrir Íslendingar tóku þátt í hlaupinu í dag. Arnar Pétursson hætti keppni eftir 20 km vegna magakrampa, Þorsteinn Roy var 12 mínútum á undan Jörundi í mark og lenti í 73. sæti. Andrea Kolbeinsdóttir var í 35. sæti af konunum og Íris Anna Skúladóttir kom 71. í mark.
Með því að smella hér er hægt að sjá tíma allra keppenda.
Halldór Hermann Jónsson nýkominn í mark í dag. Synir hans þrír tóku á móti honum, þeir Emil, Patrekur og Felix. Myndina birti eiginkona Halldórs, Eva Sigurjónsdóttir, á Facebook.
Jörundur Frímann Jónasson nálgast endamarkið á HM í dag.