Akureyringar stóðu sig vel á fyrsta bikarmótinu
Keppendur Skíðafélags Akureyrar (SKA) voru sigursælir á fyrsta bikarmóti vetrarins í skíðagöngu sem fram fór í Hlíðarfjalli um helgina. Mótið var mjög spennandi þar sem keppendur víða að af landinu, auk margra erlendis frá, háðu harða baráttu sín á milli – sem og við norðlenska janúarveðrið, sem skartaði ekki beinlínis sínu fegursta á laugardag og sunnudag!
Á föstudaginn var keppt í 1.200 metra sprettgöngu með frjálsri aðferð. Birta María Vilhjálmsdóttir, SKA, sigraði í kvennaflokki, 17 ára og eldri. Í karlaflokki (17 ára og eldri) stóðu fulltrúar SKA sig afar vel; Einar Árni Gíslason sigraði, Ævar Freyr Valbjörnsson varð í öðru sæti og Ólafur Pétur Eyþórsson í fimmta. sæti. Í flokki 15-16 ára drengja varð Birkir Kári Gíslason í þriðja sæti og Róbert Bragi Kárason í fjórða sæti.
Á laugardag var keppt í hefðbundinni göngu, karlarnir gengu 10 km en aðrir flokkar 5 km. Birta María vann flokk kvenna 17-18 ára og varð jafnframt í þriðja sæti í kvennaflokki. Í flokki 15-16 ára drengja varð Róbert Bragi þriðji og Birkir Kári fjórði. Í flokki karla röðuðu iðkendur SKA sér í þrjú efstu sætin, Ævar Freyr bar sigur úr býtum, Einar Árni varð annar og Ólafur Pétur þriðji. Þá hafnaði Erwin Van Der Werve í 12. sæti.
Á sunnudag var gengið með frjálsri aðferð, sami hringur og daginn áður. Birta María sigraði bæði í flokki 17-18 ára og í kvennaflokki, í flokki 15 -16 ára drengja var Róbert Bragi í þriðja sæti. Í flokki karla sigraði Einar Árni, varð aðeins níu sekúndum á undan Ævari Frey, félaga sínum úr SKA. Ólafur Pétur varð sjöundi og jafnframt þriðji í sínum aldursflokki. Erwin hafnaði í 13. sæti.
Skíðakappar frá framandi slóðum
Einar Árni Gíslason úr Skíðafélagi Akureyrar.
Ævar Freyr Valbjörnsson úr Skíðafélagi Akureyrar.
Hópurinn frá Mexíkó sem tók þátt í bikarmótinu.