Fara í efni
Íþróttir

Áheyrnarfulltrúar kosta 100 milljónir

Fulltrúar allra flokkanna á Akureyri í þann mund er fyrstu tölur voru lesnar upp að kvöldi kjördags til sveitarstjórna í vor. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Launakostnaður áheyrnarfulltrúa í nefndum og ráðum Akureyrarbæjar er um 100 milljónir króna á einu kjörtímabili. Hlynur Jóhannsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins, upplýsti þetta á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í dag.

Hlynur hafði orð á því að ábyrg fjármálastjórn væri mikilvæg í sveitarfélaginu og lýsti þeirri skoðun sinni að nauðsynlegt væri að velta fyrir sér, eins og öllum öðrum kostnaði, hvort rétt væri að greiða áheyrnarfulltrúum fyrir fundarsetu. Hann kveðst ekki sannfærður um það.

Tveir áheyrnarfulltrúar eru í nefndum og ráðum til þess að flokkar í minnihluta bæjarstjórnar eigi þess kost að fylgjast eins vel með gangi mála og mögulegt er. Áheyrnarfulltrúar hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum en ekki atkvæðisrétt.

„Varhugavert“ – „Galið“

Jönu Salóme Ingibjargar Jósepsdóttur, bæjarfulltrúa VG, var brugðið við orð Hlyns. „Ég tel þetta varhugaverðar hugmyndir,“ sagði hún og bætti við að sér þætti það aðför að lýðræðinu ef hætt yrði að greiða áheyrnarfulltrúum fyrir fundarsetu. „Ef við ætlum að skera niður er ekki hægt að ætlast til að fólk mæti á fundi og hafi áhrif á umræðuna.“

Hlynur svaraði því til að síðustu tvö ár hefði starfsmönnum bæjarfélagsins verið gert að velta við hverjum steini í því skyni að spara „og ég trúi ekki öðru en fólk skilji að við þurfum að ræða þetta,“ sagði hann. „Ég veit ekki betur en sumir bæjarfulltrúar dreifi sjálfum sér í nefndir og ráð, með því er ekki verið að dreifa lýðræðinu í eigin flokki,“ sagði Hlynur og bætti við að kannski ætti að byrja þar. Hann nefndi engin nöfn í því sambandi.

Ekki tillaga meirihlutans

„Mér finnst þetta galið,“ sagði Hilda Jana Gísladóttir, Samfylkingu, sem steig næst í pontu. Það væri ósmekklegt að koma fram með hugmyndir um launahækkanir. Hlynur hefði ekki haft áhuga á að ræða slíka lækkun í byrjun síðasta kjörtímabils, þegar hann var í minnihluta. Hlynur vísaði þeim orðum Hildu Jönu á bug; þetta hefði aldrei komið til tals og ekki ætti að fara með slúður í ræðustóli bæjarstjórnar eins og á Facebook.

Sunna Hlín Jóhannsdóttir, Framsókn, spurði hvort vangaveltur Hlyns um að hætta greiðslum til áheyrnarfulltrúa væri formleg tillaga meirihlutans og hvort þess myndu sjást merki í næstu fjárhagsáætlun.

Halla Björk Reynisdóttir, oddviti L-lista og formaður bæjarráðs, svaraði því til að ekki væri um formlega tillögu að ræða. Hún teldi mikilvægt að öll framboð ættu áheyrnarfulltrúa í nefndum og ráðum en liti á orð Hlyns sem hugmynd hans og hana hlyti að mega ræða.