Fara í efni
Íþróttir

Afturelding númeri of stór fyrir Þór

Færeyski hornamaðurinn Jonn Rói Tórfinnsson hjá Þór gerir eina mark sitt í kvöld. Fyrrverandi Þórsari, Jovan Kukobat, í markinu og aðrir tveir fylgjast með; Gunnar Kristinn Malmquist Þórsson og Ihor Kopyshynskyi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar eru úr leik í bikarkeppinni í handbolta eftir 10 marka tap, 31:21, fyrir Aftureldingu í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld.

Gestirnir höfðu forystu frá upphafi, komust mest átta mörkum yfir í fyrri hálfleiknum en fimm mörkum munaði í hálfleik. Staðan þá 17:12 fyrir efstu deildar lið Aftureldingar. Forskotið minnkaði framan af seinni hálfleik en gestirnir spýttu í lófana á ný þegar á leið á sama tíma og Þórsurum tókst ekki að nýta prýðileg færi.

Arnór Þorri Þorsteinsson og línumaðurinn Kostadin Petrov gerðu 6 mörk hvor fyrir Þór, Josip Vekic gerði 4, Aron Hólm Kristjánsson 3 og þeir Jón Ólafur Þorsteinsson og Jonn Rói Tórfinnsson 1 hvor. Arnór Þór Fylkisson varði 15 skot, þar af 2 víti, og hinn efnilegi Tristan Ylur Guðjónsson varði 1 skot. Hann kom í fyrsta skipti inn á í leik með meistaraflokki.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.