Fara í efni
Íþróttir

Aftur naumt tap Þórs eftir jafnan leik

Esther Fokke var stigahæst í Þórsliðinu í gær, skoraði 25 stig. Myndin er úr leik Þórs og Keflavíkur í meistarakeppni KKÍ. Mynd: karfan.is - Gunnar Jónatansson.

Þórsliðið mátti þola sitt annað tap í Íslandsmóti kvenna í körfuknattleik, Bónusdeildinni, þegar stelpurnar sóttu Hamar/Þór heim til Þorlákshafnar í gær. Fjögurra stiga tap varð niðurstaðan eftir jafnan leik. Hin bandaríska Abby Claire Beeman í liði Hamars/Þórs reyndist Þórsliðinu erfið og skoraði 39 stig.

Þórsliðið leiddi með fjórum stigum eftir fyrsta leikhlutann og hafði tíu stiga forskot undir lok fyrri hálfleiksins, en þá skoruðu heimakonur í Hamri/Þór 13 stig í röð og leiddu með þremur stigum eftir fyrri hálfleikinn. Raunar urðu stigi 17 í röð því þær skoruðu einnig tvær fyrstu körfurnar í seinni hálfleiknum. Þórsstelpurnar náðu aftur forystunni um tíma í lok þriðja og upphafi fjórða leikhluta, en þá kom aftur áhlaup heimakvenna, tíu stig í röð og heimakonur héldu forystunni út leikinn.

Esther Fokke skoraði mest Þórsara, 25 stig, Eva Wium með 20 og Maddie Sutton 19, ásamt því að taka 16 fráköst.

  • Byrjunarliðið: Amandine Toi, Esther Fokke, Eva Wium Elíasdóttir, Hrefna Ottósdóttir, Maddie Sutton
  • Gangur leiksins: Hamar/Þór - Þór (16-20) (28-21) 44-41 (21-25) (30-25) 95-91

Tölfræði leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar:

  • Esther Fokke 25 - 8 - 1
  • Eva Wium Elíasdóttir 20 - 3 - 1
  • Maddie Sutton 19 - 16 - 8 
  • Amandine Toi 13 - 6 - 4
  • Hrefna Ottósdóttir 6 - 2 - 3
  • Thea Ólafía Lucic Jónsdóttir 6 - 1 - 0
  • Emma Karólína Snæbjarnardóttir 2 - 3 - 1

Samanburður á helstu tölfræðiþáttum liðanna. Smellið á myndina til að skoða ítarlega tölfræði leiksins. eins og sjá tók Þórsliðið fleiri fráköst, en er á móti með fleiri tapaða bolta. Hamar/Þór skoraði fleiri stig eftir tapaða bolta andstæðings, en Þórsliðið með fleiri stig úr hraðaupphlaupum. Skotnýting heimakvenna ívið betri.

Annað tapið í tveimur leikjum staðreynd hjá Þórsliðinu, en bæði töpin þó eftir jafna og spennandi leiki þar sem litlu munaði í lokin. Næsta verkefni verður svo fyrsti heimaleikur liðsins á þessu keppnistímabili þegar Þór og Grindavík mætast í Íþróttahöllinni á Akureyri þriðjudaginn 15. október.