Afmælishátíð ÍBA í Boganum á laugardag
Íþróttabandalag Akureyrar (ÍBA) fagnar 80 ára afmæli sínu þann 20. desember. Af því tilefnið verður slegið upp íþróttahátíð í Boganum laugardaginn 7. desember kl. 13-17.
Aðildarfélög ÍBA munu kynna starfsemi sína í Boganum, skemmtikraftar lífga upp á daginn og fleira sem verður á dagskránni. Nánar um dagskrá hátíðarinnar hér neðar í fréttinni. Hátíðin verður sett með stuttu ávarpi formanns ÍBA kl. 13.
Á vef ÍBA um starfsemi þess og afmælishátíðina segir meðal annars í nýlegri frétt: „Innan vébanda ÍBA eru tuttugu íþróttafélög og munu flest þeirra vera á staðnum og kynna starfsemi sína og leyfa gestum og gangandi að prufa hinar ýmsu íþróttagreinar en innan aðildarfélaga ÍBA eru hátt í 50 íþróttagreinar. Auk þess fáum við nokkra góða gesti í Bogann sem munu halda uppi fjörinu með okkur og boðið verður upp á léttar veitingar fyrir gesti.“
Akur fagnar fimmtugsafmæli
Sama dag og afmælishátíð ÍBA verður haldin á eitt aðildarfélaga sambandsins, Íþróttafélagið Akur, stórafmæli og fagnar 50 ára starfsemi. Því verður fagnað sérstaklega á hátíðinni í Boganum.
Sautján af 20 aðildarfélögum ÍBA verða munu kynna starfsemi sína í Boganum á laugardag og leyfa gestum og gangandi að prófa hinar ýmsu íþróttagreinar. Hátíðin stendur yfir kl. 13-17. Aðgangur er ókeypis.
Nánari upplýsingar um afmælishátíðina má meðal annars finna á viðburðarsíðu hátíðarinnar á Facebook.
Á myndinni hér að neðan má sjá allt það helsta sem verður í boði í Boganum á laugardag.