Fara í efni
Íþróttir

Afmæli Þórs: Fjórir nýir heiðursfélagar

Tveir formenn, sem nú eru báðir heiðursfélagar í Þór. Nói Björnsson, til vinstri, núverandi formaður, og Árni Óðinsson. Ljósmynd: Ármann Hinrik

Fjórir Þórsarar voru í gær sæmdir heiðursfélaganafnbót á samkomu í tilefni 108 ára afmælis félagsins sem var í gær. Þá var fjöldi Þórsara sæmdur gull-, silfur- og bronsmerki félagsins. Nánar hér um þá.

Heiðursfélagarnir eru þessir – og með fylgir hluti ávarps Nóa Björnssonar, formanns félagsins, um hvern og einn:

ÁRNI ÓÐINSSON
Árni er einn af betri skíðamönnum sem Akureyringar hafa eignast, margfaldur Íslandsmeistari í svigi og stórsvigi og ólympíufari.

„Í nærri fjóra áratugi hefur Árni sinnt miklu og öflugu félagsstarfi fyrir Þór. Fyrst kom hann inn í starf unglingaráðs knattspyrnudeildar m.a. sem formaður þess um árabil. Þá lá leið hans í stjórn knattspyrnudeildar sem formaður.

Eftir margra ára starf fyrir knattspyrnudeild lá leið hans inn í aðalstjórn. Fyrst sem varaformaður á árunum 2006-2010 og svo sem formaður félagsins 2012-2018.

Árni sat í framkvæmdanefnd fyrir Þór frá 2007 þegar uppbygging á félagssvæði Þórs var í undirbúningi og á framkvæmdatímanum.“

Nánar hér á heimasíðu Þórs

_ _ _

PÁLL JÓHANNESSON

Páll var árum saman ritari aðalstjórnar Þórs og sá jafnframt um heimasíðu félagsins um langt árabil.

„Afrek Páls á leikvangi íþróttagreina verða ekki tíunduð hér, heldur munum við horfa til hans þáttar í að vera Þórsari sem spurði eins og forsetinn forðum, ekki hvað félagið gæti gert fyrir mig, heldur, hvað get ég gert fyrir félagið mitt.

Páll kom að starfi Þórs sem foreldri og sannarlega lét hann til sín taka þar strax og svo má segja að frá þeim degi hlóðust að honum störfin smá sem stór fyrir félagið og það skipti engu hvert verkið var, Palli mætti.

Heimasíða Þórs thorsport.is var starfsvettvangur Palla í mörg ár og fullyrða má að fáar eða engar heimasíður íþróttafélaga voru eins lifandi og öflugar og síða Þórs.

Viðtöl, ljósmyndir, umfjallanir leikja í öllum greinum og öllum aldursflokkum, fréttir og fleira og fleira gerði einmitt Þórssíðuna að glæsilegri fréttasíðu svo eftir var tekið um land allt, og þar var handbragð Palla svo sannarlega sýnilegt, því hann var allt í senn, sá sem viðtölin tók, sá sem myndirnar tók, og loks sá sem skrifaði svo fréttirnar. Geri aðrir betur. Ljósmyndasafn Páls úr félagsstarfinu skipta tugum þúsunda mynda og eru dýrmætar heimildir um sögu sem var, sögu sem enn er verið að segja og þar er Palli enn að munda myndavélina og segja söguna.“

Nánar hér á heimasíðu Þórs

_ _ _

ÞÓRODDUR HJALTALÍN

Þóroddur Hjaltalín fæddist 7. júní 1943 og er því áttræður í dag, svo segja má að hann hafi fengið heiðursfélaganafnbót í Þór í afmælisgjöf.

„Þóroddur Hjaltalín fyrrum bólstrari, knattspyrnudómari og stjórnarmaður í Þór á sér langa sögu í Íþróttafélaginu Þór. Allt frá barnsaldri hefur Þóroddur verið Þórsari í húð og hár. Þóroddur var knattspyrnudómari um langt árabil og dæmdi m.a. í efstu deildum og var eftirlitsmaður KSÍ.

Þóroddur var gjaldkeri knattspyrnudeildar um miðja áttunda áratugnum (1975-1976) og í framhaldinu tók hann svo við sem formaður deildarinnar.

Síðar eða um 1980 tók hann sæti í aðalstjórn félagsins sem varaformaður. Árið 1998 tók hann sæti á ný í stjórn knattspyrnudeildar sem formaður og sat þar um árabil.“

Nánar hér á heimasíðu Þórs

_ _ _

ÞRÖSTUR GUÐJÓNSSON

Þröstur er fæddur á Ísafirði um miðja siðustu öld og uppalinn þar en flutti til Akureyrar 1971, nýútskrifaður frá Íþróttakennaraskólanum að Laugarvatni. Þegar til Akureyrar kom tók hann að sér knattspyrnuþjálfun yngri flokka hjá Þór vann við það í mörg ár.

Hann hóf einnig að leika knattspyrnu með ÍBA, siðar Þór og körfubolta með Þór. Þröstur var gríðarlega duglegur að sækja sér verkefni í íþróttahreyfingunni mest sem sjálfboðaliði. Sat m.a. í stjórn kröfuknattleiksdeildar á tímabili. Einnig var hann í Skíðaráði Akureyrar í rúm 20 ár, stóran hluta þess tíma sem formaður, formaður ÍBA var kappinn í ein 20 ár líka. Ekki má gleyma aðkomu Þrastar að íþróttum fatlaðra í allri þessari upptalningu, hann hefur alla tíð verið duglegur að sækja sér menntunar og eða upplýsinga í þeim fræðum.“

Nánar hér á heimasíðu Þórs