Afinn og alnafninn fylgist vel með Skúla
Skúli Ágústsson, Golfklúbbi Akureyrar, er á meðal keppenda á Íslandsmótinu á Jaðarsvelli. Nafnið hringir án efa bjöllum hjá mörgum enda eitt það kunnasta í akureyrskri íþróttasögu síðustu áratugi.
Skúli Gunnar, eins og hann heitir fullu nafni, sá sem er mörgum svo kunnur sem einn Kennedy-bræðranna, þótti gríðarlega góður knattspyrnumaður og var einn burðarása ÍBA-liðsins á sínum tíma. Þá var hann afar sleipur á svellinu – bæði í skautahlaupi og íshokkí – og eftir að Skúli eignaðist golfkylfu lék hún vitaskuld í höndum hans eins og svo margt annað! Hann afrekaði að verða Öldungameistari Íslands einu sinni, þegar mótið fór fram á Akureyri.
Það er þó ekki þessi gamla kempa sem tekur þátt í Íslandsmótinu nú heldur dóttursonur hans og alnafni. Sá Skúli Gunnar Ágústsson sagðist í dag hafa leikið þriðja hring mótsins ömurlega; honum hefði verið skapi næst að henda pútternum sínum þegar verst lét! Skúli yngri hefur leikið Jaðarsvöll á 19 höggum yfir pari á Íslandsmótinu, er á 232 höggum (79, 74, 79) og spreytir sig enn og aftur á vellinum fallega á morgun.
Skúli Gunnar er bráðefnilegur kylfingur og var einn fjögurra Íslendinga sem tóku þátt í European Young Masters í Finnlandi í síðasta mánuði. Og eitt er víst, ekki er ástæða til að örvænta því hann hefur tímann fyrir sér. Drengurinn er fæddur 2006 og fagnaði 15 ára afmæli fyrr í sumar. Framtíðin er hans.