Ævintýrastig KA eftir ótrúlegan lokakafla
Andri Snær Stefánsson tryggði KA annað stigið þegar hann jafnaði úr vítakasti, 31:31, eftir að leiktíminn var liðinn í viðureign við FH í Hafnarfirði í kvöld. Allt var þá á suðupunkti; FH-ingar brjálaðir vegna dómsins en gamla brýnið lét það ekki slá sig út af laginu og skoraði af öryggi eins og svo oft áður. KA-menn eru þar með komnir með fimm stig í deildinni.
Segja má að lokamínúturnar hafi verið ævintýralegar. FH hafði nefnilega fjögurra marka forystu, 31:27, þegar tvær mínútur voru eftir!
Fyrri hálfleikur var jafn en FH tveimur mörkum yfir þegar viðureignin var hálfnuð, 15:13. Seinni hálfleikur var líka jafn lengst af og KA meira að segja yfir í tvígang, 20:19 og 21:20 um miðjan hálfleikinn.
Þegar leið á leikinn brást KA mönnum alltof oft bogalistin í sókninni og FH virtist á góðri leið með að tryggja sér bæði stigin. En með ótrúlegum baráttuvilja - í bland við fádæma klaufaskap FH-inga - gerðu KA-menn fjögur síðustu mörkin. Allan Norðberg minnkaði muninn í þrjú mörk, 31:28, og eftir misheppnaða sókn heimamanna gerði Jón Heiðar Sigurðsson 29. mark KA, þegar 90 sekúndur voru eftir. Aftur klúðraði FH skoti og Ólafur Gústafsson gerði 30. mark KA þegar 30 sekúndur voru eftir! Ótrúlegt, en satt, missti FH boltann enn einu sinni í lokasókn liðsins, KA-menn brunuðu fram og fengu hið umdeilda víti. Í fyrstu var ekki augljóst hver niðurstaðan yrði en eftir mikla rekistefnu drógu dómararnir upp rauða spjaldið, ráku einn FH-inginn út af, dæmdu víti.
Mörk KA í kvöld: Einar Birgir Stefánsson 8, Ólafur Gústafsson 7, Allan Norðberg 5, Jón Heiðar Sigurðsson 4, Andri Snær Stefánsson 3/2, Árni Bragi Eyjólfsson 3, Áki Egilsnes 1.
Nicholas Satchwell varði 7 skot og Svavar Ingi Sigmundsson 6.