Fara í efni
Íþróttir

Ævintýraferð Þórsara í leikinn við Hött

Þórsarar við Goðafoss í dag. Erlendu leikmönnunum fannst það ekki ónýtt að stoppa við þá náttúruperlu og skoða sig um. Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson.

Þórsarar mæta nýliðum Hattar á Egilsstöðum í kvöld, í Domino's deildinni í körfubolta. Þór er með fjögur stig að loknum sjö umferðum, eftir tvo glæsilega sigra undanfarið – á Tindastóli og Val, en Höttur í neðsta sæti með tvö stig, ásamt Haukum. Leikurinn í kvöld er því einkar mikilvægur.

Ferðalag dagsins er óvenjulegt, annars vegar vegna þess að menn gáfu sér tíma til að stoppa við Goðafoss og sýna útlendingunum í liðinu þá náttúruperlu í fallegum vetrarskrá, hins vegar vegna þess að fara þarf lengri leiðina heim, keyra ströndina eins og það er kallað. Þjóðveginum um Mývatns- og Möðrudalsöræfi er nefnilega lokað klukkan 18.00 þessa dagana vegna aðstæðna, en krapastífla og flóðahætta við brúna á Jökulsá á Fjöllum hafa gert mönnum lífið leitt undanfarið. „Það verður ævintýri. Strákarnir hafa bara gaman að þessu,“ sagði Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs, við Akureyri.net.

Allir leikmenn Þórs eru klárir í slaginn í kvöld og Fílabeinsstrendingurinn Guy Landri Edi er í hópnum í fyrsta skipti. Hann gekk til liðs við Þór á dögunum, er laus úr sóttkví og hefur æft með liðinu síðustu daga. Bjarki  segir að Edi komi eitthvað við sögu í kvöld.

Gaman verður að sjá hvort bandaríski bakvörðurinn, Dedrick Basile og spænski miðherjinn, Ivan Aurrecoechea, halda sínu striki en þeir hafa farið á kostum undanfarið. „Það eru kannski stór orð en mér finnst þetta vera einn skemmtilegasti og flottasti dúettinn í deildinni. Þeir eru alltaf góðir,“ sagði Teitur Örlygsson, sú gamla körfuboltakempa og einn sérfræðinga í körfuboltaþætti Stöðvar 2 Sport, Domino's kvöldi. Ekki svo að skilja að aðrir hafi ekki staðið sig vel í síðustu leikjum, liðsheildin hefur einmitt verið sterk en þeir Dedrick og Ivan frábærir og því áberandi.

Leikurinn hefst klukkan 18.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Andlegur undirbúningur og upplyfting við Goðafoss í dag, á leiðinni austur í Egilsstaði.