Ætlum að njóta þess að spila – og vinna!
„Við erum hrikalega ánægð með að vera komin í úrslitaleik. Verkefnið er fáránlega spennandi og við ætlum að selja okkur virkilega dýrt,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari kvennaliðs KA/Þórs í handbolta, í samtali við Akureyri.net. Íslandsmeistarar KA/Þórs leika til úrslita í bikarkeppninni í dag.
Úrslitaleikurinn, sem fer fram í íþróttahúsi Hauka í Hafnarfirði og hefst klukkan 13.30 , verður sýndur beint í Ríkissjónvarpinu.
Akureyrarliðið hóf síðasta keppnistímabil með sigri á Fram í meistaraleik HSÍ og hlaut þá nafnbótina Meistari meistaranna. Lokahnykkur – og hápunktur – tímabilsins var þegar KA/Þór varð Íslandsmeistari í fyrsta skipti, en bikarkeppninni var frestað þannig að með úrslitaleik dagsins lýkur í raun síðasta keppnistímabili, þótt nýtt sé hafið. Sigri KA/Þór í dag verða stelpurnar handhafar allra bikaranna sem í boði voru keppnistímabilið 2020 til 2021. Það yrði sannarlega saga til næsta bæjar.
Lið Fram er frábært
KA/Þór vann mjög auðveldan sigur á FH í undanúrslitunum á fimmtudag en Fram hafði betur í hörkuleik gegn Val.
Velta má fyrir sér hvort sé betra í aðdraganda úrslitaleiksins; að sigra lakari andstæðing auðveldlega eða lenda í hörkurimmu við mjög öflugan mótherja. „Það getur verið beggja blands en þegar komið er í úrslitaleik skiptir það í raun engu máli. Allir leggja eymsli til hliðar, undirbúa sig vel og svo er allt lagt í sölurnar. Framliðið er frábært og við þurfum að spila virkilega vel til þess að vinna. Við þurfum sérstaklega að einbeita okkur að því að spila góða vörn og fá góða markvörslu samhliða því. Fram er frábært hraðaupphlaupslið þannig að við þurfum að stýra hraðanum í leiknum, og enda sóknirnar vel svo þær nái ekki hraðaupphlaupum – þetta eru lykilatriði á móti Fram,“ segir Andri Snær.
Ætlum að vinna – engin spurning!
Fram varð Meistari meistaranna á dögunum með öruggum sigri á KA/Þór í KA-heimilinu. „Það verður gaman að mæta þeim aftur,“ segir Andri. Sú viðureign var í jafnvægi lengi vel en þegar á leið voru Framarar mun öflugri. „Það kom einn sérstaklega slæmur kafli hjá okkur þá sem fór eiginlega með leikinn. Við gáfum allt of mikið eftir og það má alls ekki á móti Fram; einbeiting verður að vera upp á 10 í 60 mínútur, það þarf að spila af fullum krafti allan tímann því ef eitthvað er gefið eftir fer hraðlestin þeirra í gang. Nú erum við öll virkilega vel stemmd og förum með mjög gott sjálfstraust í leikinn. Það er alveg á hreinu hvað þarf að gera og hvað við ætlum að gera. Við einbeitum okkur að því að spila okkar leik af fullum krafti þá verður liðið virkilega flott í þessum leik. Við ætlum okkur sigur – það er engin spurning!“
Lið Fram er sterkara en síðasta vetur, þegar það tapaði í undanúrslitum Íslandsmótsins fyrir Val, segir Andri. Emma Olsson, mjög góður, sænskur línumaður gekk til liðs við Fram í sumar, og þá er landsliðsmarkvörðurinn Hafdís Renötudóttir einnig komin til félagsins. Þóra Rósa Stefánsdóttir og Karen Knútsdóttir eru með af fullum krafti á ný en voru lítið með á síðasta keppnistímabili þegar báðar eignuðust barn.
Hin þrautreynda Unnur Ómarsdóttir er komin aftur til KA/Þórs og Sofie Søberg, dönsk örvhent skytta, gekk einnig til liðs við meistarana í sumar. Þær styrkja mjög öflugan leikmannahóp enn frekar.
Afar fróðlegt verður að fylgjast með leik tveggja mjög sterkra liða í dag. „Við ætlum að stilla spennustigið rétt og virkilega njóta þess að spila fyrir félagið okkar! Við vonumst til þess að sjá sem flesta Akureyringa á leiknum til að styðja okkur!“ segir Andri Snær Stefánsson.
Áfram KA/Þór!
Leikmenn og þjálfarar KA/Þórs eftir sigurinn á FH í undanúrslitum bikarkeppninnar á fimmtudaginn. Ljósmynd: Ágúst Stefánsson.