Fara í efni
Íþróttir

Ætlum að búa til gott lið úr eigin strákum

Orri Freyr Hjaltalín tók við þjálfun Þórsliðsins eftir síðasta sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

„Ég er mjög spenntur fyrir sumrinu. Við munum henda mörgum ungum heimastrákum í liðið og það verður mjög áhugavert að sjá hvernig þeir standa sig í þessari deild,“ sagði Orri Freyr Hjaltalín, þjálfari karlaliðs Þórs í fótbolta, í samtali við Akureyri.net. Þórsarar leika áfram í næst efstu deild Íslandsmótsins, Lengjudeildinni, en hefja „alvöru“ keppnistímabilið í kvöld með bikarleik gegn Magna frá Grenivík í Boganum.

Töluverðar breytingar hafa orðið á Þórsliðinu frá því síðasta sumar auk þess sem Orri er nýr þjálfari. „Það má segja að öll reynslan hafi horfið úr liðinu á síðustu þremur til fjórum árum. Jóhann Helgi og Sigurður Marinó eru einir eftir af þeim gömlu. Við höfum ekki verið að fá mikið af leikmönnum í gegnum tíðina, notum aðallega okkar stráka. Það er bara Þór; við höfum aldrei haft efni á því að vera með 10 aðkomumenn heldur reynum við að búa til okkar leikmenn sjálfir.“

_ _ _

Nokkur fjöldi hefur horfið á braut síðustu misseri. Þetta eru þeir sem komu hvað mest við sögu

  • Jakob Franz Pálsson fór í vetur til Venezia á Ítalíu
  • Jónas Björgvin Sigurbergsson hætti í haust
  • Loftur Páll Eiríksson fór í vetur í Leikni í Reykjavík
  • Sveinn Elías Jónsson hætti í haust og er annar aðstoðarþjálfara Orra Freys
  • Ármann Pétur Ævarsson lagði skóna á hilluna eftir sumarið 2019
  • Aron Kristófer Lárusson fór til ÍA sumarið 2019
  • Ingi Freyr Hilmarsson lagði skóna á hilluna 2018

_ _ _

Gengi Þórsliðsins hefur verið upp og ofan í vetur. „Við lentum í mjög sterkum riðli í Lengjubikarnum, vorum með þremur toppklúbbum úr Pepsi Max deildinni og töpuðum frekar illa fyrir þeim en í öðrum leikjum fannst mér liðið vera á pari við það sem ég bjóst við. Við unnum þau lið sannfærandi sem við áttum að vinna en töpuðum reyndar fyrir tveimur Lengjudeildarliðum í Lengjubikarnum, en hafa verður í huga að okkur vantaði nokkra mikilvæga leikmenn í hvern einasta leik auk þess sem enginn útlendinganna þriggja, sem verða með okkur, voru komnir.“

Framherjinn Alvaro Montejo, markahæsti leikmaður Þórs undanfarin ár, kemur til landsins um helgina og fer í nokkurra daga sóttkví. Hann verður því væntanlega ekki með í fyrsta leik Íslandsmótsins, gegn Gróttu á Seltjarnarnesi á föstudaginn kemur.

Ánægður með nýju útlendingana

Hinir útlendingarnir tveir hafa verið með Þórsurum undanfarið og þjálfarinn er ánægður með þá. Það eru serbneski miðvörðurinn Petar Planic og hollenski miðjumaðurinn Liban Abdulahi. Sá síðarnefndi náði sér ekki á strik í úrslitaleik Kjarnafæðismótsins gegn KA og fór af velli fljótlega í seinni hálfleik. „Hann var með bullandi tannpínu þannig að hann var skiljanlega ekki upp á sitt besta!“ segir Orri. „En þeir líta báðir mjög vel út og hafa smollið vel inn í hópinn, sem skiptir gríðarlegu máli.“

Orri Freyr þjálfar nú meistaraflokk í fyrsta skipti og stekkur beint út í djúpu laugina þegar hann tekur við uppeldisfélaginu. Hvernig hefur honum þótt að takast á við verkefnið til þessa?

„Þetta er nánast eins og ég bjóst við. Það er ýmislegt sem maður getur því miður ekki stjórnað, eins og Covid pásurnar en þær hafa vonandi jafn mikil áhrif á öll liðin. Það var ekkert rosalega gaman að reyna að skipuleggja æfingar með þeim ströngu skilyrðum sem sett voru en þannig er það bara. Að öðru leyti hefur þetta verið fínt; ég þekki klúbbinn út og inn og hann þekkir mig svo það er ekkert sem hefur komið eitthvað sérstaklega á óvart.“

Margir spennandi strákar

Hvað með markmið sumarsins eða næstu ára? Hvert stefnir Þór? „Við höfum ekki gefið sérstaklega út hvað við ætlum okkur í sumar, en það er alveg klárt að markmiðið á næstu árum er að búa til alvöru lið sem getur gert atlögu að því að fara upp í efstu deild og halda sér þar – helst með því að nota okkar eigin stráka. Margir feykilega spennandi strákar eru að koma upp hjá Þór, einn er þegar farinn til Ítalíu og ég hef trú á því að fleiri eigi eftir að fara út.“

Fyrsti „alvöru“ leikur tímabilsins er í kvöld, sem fyrr segir. Þór mætir Magna í Boganum í Mjólkurbikarkeppninni og verður flautað til leiks klukkan 19.15. „Það er aldrei auðvelt að spila við nágrannaliðin því þau þekkja yfirleitt hvert annað út og inn. Þetta verður vonandi hörkuleikur,“ sagði Orri Freyr spurður um viðureign kvöldsins.