105! – Birkir bætir landsleikjametið
Birkir Bjarnason verður í dag landsleikjahæsti knattspyrnumaður Íslands í karlaflokki, þegar Ísland mætir Norður-Makedóníu ytra í undankeppni heimsmeistaramótsins. Það verður 105. landsleikur Birkis. Í leiknum gegn Rúmeníu á fimmtudaginn jafnaði Birkir met Rúnars Kristinssonar sem staðið hafði síðan 2004.
Fyrsti leikur Birkis með A-landsliðinu var á Laugardalsvelli 29. maí 2010, þegar Ísland vann Andorra 4:0 í vináttuleik. Það var einnig fyrsti A-landsleikur Gylfa Þórs Sigurðssonar.
Birkir er fæddur á Akureyri og lék með KA í yngri flokkunum en flutti með fjölskyldunni til Noregs 11 ára gamall.
Ritstjóri Akureyri.net hefur töluvert skrifað um Birki í gegnum tíðina. Hér að neðan er hluti greinar sem birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins haustið 2012 um Hvíta víkinginn, í tilefni þeirra kynslóðaskipta sem höfðu átt sér stað í landsliði Íslands.
_ _ _
Síminn hringdi hjá Luca Lúkasi Kostic árið 2004, sem er auðvitað ekki í frásögur færandi nema hvað í þetta ákveðna skipti var erindið ekki hversdagslegt. Á línunni var gamall liðsfélagi hans úr Þór á Akureyri, Bjarni Sveinbjörnsson, búsettur í Noregi, og spurði: „Má sonur minn koma á æfingu til þín? Ég held hann sé nógu góður til að spila með landsliðinu.“
Luca var þjálfari landsliðs 17 ára og yngri og reyndist sammála sínum gamla vini. Drengurinn var nógu góður og hefur spilað marga leiki fyrir Íslands hönd síðan.
Birkir Bjarnason fæddist á Akureyri en steig fyrstu knattspyrnuskrefin í Vestmannaeyjum, þá fimm ára, þegar faðir hans lék eitt sumar með ÍBV. Þetta var 1993.
Þegar fjölskyldan fór aftur norður settist hún að á Brekkunni og Birkir fór að æfa með KA. Í því 6. flokks liði voru þá tveir framtíðarlandsliðsmenn; Birkir og Almarr Ormarsson, sem nú leikur með Fram. Gott hlutfall það!
Birkir lagði stund á ýmsar íþróttir; sund, handbolta og frjálsíþróttir en var alltaf hrifnastur af fóboltanum. Þegar hann var 11 ára tók fjölskyldan sig upp og flutti Noregs, 1999.
Faðir hans var geysigóður knattspyrnumaður og er markahæsti Þórsarinn í efstu deild en móðir Birkis, Halla Halldórsdóttir, var einnig góð íþróttakona; lék lengi blak með KA og var landsliðsmaður í íþróttinni. Halla æfði reyndar frjálsíþróttir með UNÞ á sínum yngri árum þegar faðir hennar var skólastjóri á Lundi í Öxarfirði. Birkir hefur því sannarlega ekki íþróttagenin bara úr föðurnum og margir þykjast einmitt þekkja baráttukraftinn úr móðurinni!
Foreldrar Birkis segja hann hafa verið mjög öflugan strax frá unga aldri. „Hann var alltaf með þeim betri í yngri flokkunum og þegar hann kom til Noregs spilaði hann yfirleitt með eldri strákum, því gæðamunurinn var töluverður. Íslenskir jafnaldrar hans voru betri en þeir norsku,“ segir faðirinn.
Bjarni, Halla og börnin þrjú, Birkir, Björg og Kristófer Atli, fluttu á sínum tíma til Fyggjo sem er úthverfi Sandnes, 60 þúsund manna bæjar, sem er samvaxinn Stavanger. Birkir hóf að leika með meistaraflokki Fyggjo í 3. deild aðeins 15 ára að aldri og ári seinna var hann fenginn til Víkings í Stafangri. Fyrsti leikur Birkis í aðalliði Víkings var Evrópuleikur í Búlgaríu þegar hann var 17 ára og vert er að geta þess að þjálfari Víkings var enginn annar en Roy Hodgson, nú landsliðsþjálfari Englands.
_ _ _
Birkir var strax í æsku ör og virkur, að sögn foreldranna. „Það fór töluvert fyrir honum, hann meiddi sig oft en var alltaf harður af sér. Hélt alltaf áfram, sama á hverju gekk, bæði í fótboltanum og öðru. Hann er mjög jákvæður, tilfinningaríkur og geðgóður,“ segir móðir hans við Morgunblaðið. Halla segir Birki trygglyndan og mikinn fjölskyldumann, þótt hann hafi ekki enn stofnað fjölskyldu sjálfur. „Hann er duglegur við að heimsækja afa og ömmu þegar hann er á Íslandi og fer alltaf heim til Akureyrar í fótboltafríunum. Fjölskylda mín hefur lengi verið í hestamennsku og Birkir ríður eins oft út og hann mögulega getur þegar hann er á Akureyri. Hann var einmitt að kaupa sér fyrsta hestinn um daginn,“ segir Halla. Meðan Birkir sparkar bolta á Ítalíu er fákurinn í góðu yfirlæti í höfuðstað Norðurlands. Tveir gæðingar þar á ferð.
Nánar um Birki síðar í dag
Myndasyrpa af Birki sem birtist með greininni í Morgunblaðinu 2012.
Hvað er mikið eftir? Birkir ræðir við dómarann nokkrum mínútum áður en flautað var til loka leiks Íslands og Englands á Evrópumótinu í Frakklandi 2016, þar sem Íslendingar sigruðu eftirminnilega 2:1. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.