Fara í efni
Fréttir

Zik Zak lokað í annað sinn á Akureyri

Starfsfólk Zik Zak á Akureyri Ragnhildur, Arnfríður og Hafdís.

Tískuhúsið Zik Zak lokar verslun sinni á Glerártorgi á morgun. Þetta er í annað sinn sem verslunin hættir rekstri á Akureyri en vörur fyrirtækisins verða áfram aðgengilegar í netverslun og í versluninni í Kringlunni.

Eins og sést á Facebook síðu Zik Zak á verslunin á Akureyri sér marga dygga aðdáendur sem syrgja brottför tískuvöruverslunarinnar úr bænum. Í spjallþræði við tilkynningu um lokun tískuhússins halda margir viðskiptavinir því fram að það sé há leiga sem hreki verslunina frá Glerártorgi og biðla til fyrirtækisins að fara ekki úr bænum heldur frekar finna ódýrara leiguhúsnæði í bænum.

Akureyringar versla frekar á netinu

Að sögn Berglindar Ásgeirsdóttur, eiganda Zik Zak hefur þó leiguverð ekkert með þessa ákvörðun að gera heldur kauphegðun Akureyringa. „Verslunin á netinu er orðin svo stór á Akureyri, eða um 40% af sölunni og því tókum við þessa ákvörðun,“ segir Berglind. Hún segir að verslunin eigi mjög trygga kúnna í bæjarfélaginu en í covid virðist margir þeirra hafa komist upp á lagið með að nota netverslunina og kjósi áfram að versla úr sófanum heima frekar en að koma á staðinn þó verslunin sé í bænum. Að sögn Berglindar sést þetta sést svart á hvítu á færslum verslunarinnar.

Fullreynt í annað sinn

Tískuhúsið Zik Zak hefur verið á Glerártorgi frá því í mars 2017 en verslunin selur fjölbreyttan kvenfatnað, bæði hversdags- og spariföt, í stærðum frá 36 til 56. Þetta er í annað sinn sem Zik Zak lokar verslun sinni á Akureyri en áður hafði hún verið rekin í miðbænum við Ráðhústorgið en var svo lokað en opnaði nokkrum árum seinna á Glerártorgi. „Þetta hafa verið fimm góð ár á Glerártorgi og ég vil nota tækifærið og þakka mínu góða starfsfólki á Akureyri fyrir vel unnin störf í gegnum árin. Ég hef verið með alveg frábærar stelpur,“ segir Berglind.

Útsala hefur staðið yfir í versluninni þessa síðustu daga en síðasti opnunardagur verslunarinnar er á morgun, föstudag. Lítið er orðið eftir af vörum en vörurnar sem eftir eru á verðbilinu 500-3000 krónur. „Við erum bara að hreinsa út,“ segir Berglind sem lofar að tekið verði vel á móti Akureyringum í versluninni í Kringlunni, auk þess sem þjónusta netverslunarinnar verði efld enn frekar.