Fara í efni
Fréttir

Yfirvofandi skortur á ljósmæðrum áhyggjuefni

Kristín Hólm Reynisdóttir, ljósmóðir á Akureyri og formaður Norðurlandsdeildar Ljósmæðrafélags Íslands. Ljósmynd: Rakel Hinriksdóttir

Norðurlandsdeild Ljósmæðrafélags Íslands hefur miklar áhyggjur af fækkun í stéttinni á landsbyggðinni og yfirvofandi ljósmæðraskorti þar. Háskóli Íslands hætti að bjóða upp á nám í ljósmóðurfræðum fyrir 15 árum.

„Það myndi muna svo miklu fyrir þær sem eru áhugasamar um ljósmóðurnámið, ef það væri hægt að bjóða upp á það sem fjarnám aftur,” segir Kristín Hólm Reynisdóttir, ljósmóðir á Akureyri og formaður Norðurlandsdeildar Ljósmæðrafélags Íslands. Kristín er ein af þeim sem þurfti að flytja suður með fjölskylduna sína til þess að sækja námið við Háskóla Íslands. „Ég var alltaf staðráðin í því að koma aftur norður, og stóð við það. En vissulega hefði það verið mikið auðveldara að geta búið áfram hér og verið í fjarnámi,” segir Kristín.

Fjarnám fyrir fimmtán árum

Kristín segir að kjarninn í starfshópi ljósmæðra á Sjúkrahúsinu á Akureyri séu konur sem nýttu tækifærið þegar HÍ bauð upp á fjarnám fyrir fimmtán árum síðan. Endurnýjun í hópnum sé mjög takmörkuð, sem er vissulega áhyggjuefni, en það er til dæmis þannig að eftir 55 ára aldur þarf ljósmóðir ekki að taka næturvaktir lengur. Þannig flyst álagið af þeim hluta starfsins mikið á yngri hópinn. Um það bil 400 börn fæðast á Sjúkrahúsinu á Akureyri árlega og miðað við stöðuga fólksfjölgun á svæðinu undanfarin ár mun sú tala ekki fara lækkandi.

Fyrirspurn til Háskóla Íslands send síðasta vetur

Í marsmánuði síðastliðnum sendi Kristín bréf fyrir hönd Norðurlandsdeildar Ljósmæðrafélagsins til Háskóla Íslands þar sem hún lýsti yfir áhyggjum um yfirvofandi skort í starfsstéttinni á landsbyggðinni og vilja til þess að námið yrði aftur til boða sem fjarnám. „Eina svarið sem við í rauninni fengum var að erindið væri móttekið og endilega að halda samtalinu gangandi, en þetta væri mjög flókið í framkvæmd. Nú erum við í rauninni að koma róti á samtalið aftur með því að senda erindi á framkvæmdastjórn Sjúkrahússins á Akureyri og fá þau með okkur í lið.”

Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk brást við og á heimasíðu Sjúkrahússins skorar hún á Heilbrigðisvísindasvið Háskólans að bjóða aftur upp á fjarnám í ljósmóðurfræði.

Vilja greiða leiðina fyrir ljósmæður framtíðarinnar

„Það vantar ljósmæður út um allt land. Það er ekkert bara hérna,” segir Kristín. „En aðal málið, að okkar mati, er að berjast fyrir því að konur þurfi ekki að rífa sig upp með rótum til þess að ná sér í þessa menntun. Það myndi bara breyta öllu, við viljum greiða leiðina fyrir framtíðar ljósmæður,” segir Kristín Hólm að lokum.