Fara í efni
Fréttir

VMA: 88 nemendur brautskráðir í dag

Ljósmynd: Páll A. Pálsson

Áttatíu og átta nemendur voru brautskráðir frá Verkmenntaskólanum á Akureyri við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Hofi í gær. Sjö nemendur brautskráðust með tvö skírteini og því voru afhent níutíu og fimm brautskráningarskírteini. Alls hefur skólinn útskrifað á þessu almanaksári 271 nemanda með 304 skírteini en 183 nemendur með 209 skírteini voru útskrifaðir í vor sem var ein stærsta útskrift í sögu VMA.

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari, ræddi töluvert um hlutverk VMA í ræðu sinni við brautskráninguna.

„VMA er eini starfsnámsskólinn á stóru landssvæði, frá Sauðárkróki í vestri að Verkmenntaskóla Austurlands austur í Neskaupsstað. Á þessu svæði eru átta framhaldsskólar þannig að samkeppni um nemendur er töluverð, sérstaklega í námi til stúdentsprófs. Á þessu svæði er nemendafækkun þar sem færri ungmenni eru á svæðinu en áður var,“ sagði skólameistari.

Hvers virði er ... ?

„Það er enginn framhaldsskóli á landinu með eins fjölbreytt námsframboð og VMA fyrir utan Tækniskólann í Reykjavík sem er lang stærsti framhaldsskóli landsins. Í VMA hefur verið metnaður fyrir því að halda í okkar fjölbreytta námsframboð og við oftar en ekki farið af stað með námsbrautir með fámenna nemendahópa, jafnvel þótt við vitum að námið muni líklega ekki standa undir kostnaði. Reiknilíkan fyrir framhaldsskólana tekur ekki tillit til þess þegar fámennir námshópar fara af stað þótt það geti skipt atvinnulíf á svæðinu miklu máli ásamt því að gera fólki kleift að stunda nám í sinni heimabyggð,“ sagði Sigríður Huld og hélt áfram: „Hvers virði er það fyrir þetta svæði að útskrifa t.d. stálsmiði, þjóna, kokka, kjötiðnaðarmenn, bifvélavirkja eða sjúkraliða? En allt er þetta nám með fáum nemendum sem farið er af stað með þar sem við teljum það vera hlutverk VMA að stuðla að atvinnuþróun og nýsköpun í nærsamfélaginu. Reiknilíkanið fyrir framhaldsskóla tekur ekki tillit til þess virðisauka sem þessar fámennu námsbrautir gefa inn í mannauðinn og atvinnulífið á svæðinu.“

Ljósmynd: Páll A. Pálsson

VMA 40 ára á næsta ári

Sigríður Huld gat þess að Verkmenntaskólinn fagni 40 ára afmæli á komandi ári.

„Á næsta ári, 2024 eru 40 ár frá því að VMA var stofnaður og fyrstu nemendurnir mættu í skólann. Þegar gluggað er í söguna sést að það var ekkert einfalt mál að setja þennan skóla á laggirnar en elja ýmissa aðila hér á Akureyri, í sveitarfélögunum hér í kring og að lokum með stuðningi Alþingis og ráðherra þess tíma varð þessi skóli okkar til. Það var mikið framfaraskref fyrir svæðið að stofna VMA sem varð til þegar framhaldsdeildin við Gagnfræðaskólann á Akureyri, Iðnskólinn á Akureyri, Hússtjórnarskólinn og Vélskólinn sameinuðust undir merkjum VMA. Mikill metnaður var lagður í hönnun skólans og byggingar fóru að rísa á Eyrarlandsholtinu sem þá var eiginlega úti í sveit. Byggingarsaga skólans er orðin löng og því miður margt í hönnun hans ekki lengur í takt við þann nemendahóp og það nám sem nú er í VMA, þó svo að skólahúsnæðið hafi þótt afar framsækið á sínum tíma. Nú er svo komið að byggja þarf við skólann til að koma til móts við aukna aðsókn í iðn- og starfsnám. Búið er að ákveða að fara í hönnun og nýbyggingu við fjóra starfsnámsskóla á landinu og er VMA meðal þeirra skóla. Undirbúningur er hafinn og vonandi verður hægt að taka fyrstu skóflustunguna á afmælisárinu.“

Sigríður Huld sagði að ætlunin væri að halda vel upp á afmælið „með stórum og litlum viðburðum innan og utan skólans. Ýmsar hugmyndir hafa verið ræddar og afmælisnefnd verður skipuð í upphafi árs. Verið er að hanna afmælismerki skólans og við ætlum okkur að vera mjög áberandi í umræðunni og úti í samfélaginu.“

Halda þarf í mennskuna í tækniþróuðu samfélagi

„Við sem störfum og höfum starfað í VMA erum stolt af okkar starfi með nemendum og samstarfsfólki. Við eigum að vera óhrædd við að segja meira frá því og það ætlum við að gera. Fyrrverandi, núverandi og verðandi nemendur okkar er það sem við erum alltaf stoltust af. Sporin sem nemendur marka í skólanum og úti í samfélaginu eru dýrmæt, mikilvæg og breyta heiminum. Við ætlum líka að vera dugleg að segja frá því með stolti,“ sagði Sigríður Huld.

„En sporin sem nemendur skilja eftir sig verða ekki sýnileg ef nemendur fá ekki að dafna í sínu námsumhverfi og þar er stærsta áskorun okkar kennara og stjórnenda í VMA. Kröfur til okkar eru miklar og ábyrgðin mikil. Það að ná til nemenda er ekkert einfalt og kennarar þurfa stöðugt að vera að meta stemninguna í hverjum nemendahópi, finna leiðir sem virka, læra af mistökum, finna áhugavert og krefjandi námsefni og verkefni.

Í heimi sem er sífellt að breytast og áreitin eru mörg er hlutverk kennara afar mikilvægt. En kennarastarfið mun seint hverfa algjörlega inn í heim sjálfvirkni og snjallvæðingu þótt tæknin sé sannarlega að breyta kennsluháttum og skólastarfi. Hvað sem verður þá er það alltaf í okkar höndum að halda í mennskuna í tækniþróuðu samfélagi. Þróun í skólastarfi er að færast meira frá ákveðnum og skilgreindum greinum og áföngum yfir í að vera meira í þá átt að halda í tungumál okkar og menningu, efla samkennd og samvinnu, kenna meira um alþjóðlegt samfélag og mismunandi menningarheima, kenna umburðarlyndi og efla jafnrétti í víðum skilningi.“

_ _ _ _ _ _ 

Sara Dögg Sigmundsdóttir, sjúkraliði og nýstúdent, flutti ræðu brautskráningarnema í Hofi í dag. Ræðuna má sjá hér á vef VMA.
_ _ _ _ _

Fjölbreytt skólastarf og félagslíf

Sigríður Huld sagði ánægjulegt hversu vel félagslífið í skólanum hafi náð sér á strik eftir kóvid faraldurinn og nefndi bæði söng og leiklist sem dæmi. 

„Nemendur okkar hafa gert það gott í ýmsum keppnum á árinu. Nemendur okkar á viðskipta- og hagfræðibraut tóku t.d. þátt í JA Iceland sem er árleg vörumessa framhaldsskólanema sem stofna fyrirtæki og kynna vöru sína á þessari vörumessu sem haldin var í Smáralind. VMA átti nokkra þátttakendur á Íslandsmóti iðngreina sem fór fram í Laugardalshöll sl. vor þar sem nemendur okkar stóðu sig með miklum sóma.“ 

  • Hafþór Karl Barkarson varð Íslandsmeistari í málmsuðu
  • Írena Fönn Clemmensen varð Íslandsmeistari í háriðn.
  • Írena var í landsliði Íslands á Euro-Skills sem er Evrópumeistaramót nemenda í iðngreinum og var haldið í Gdansk í Póllandi í september.  Hún var sá keppandi frá Íslandi sem fékk flest stig í keppninni.

„Nokkrir úr starfsmannahópi VMA fóru til Póllands til að fylgjast með eða dæma á Euro-Skills og þar á meðal ég sjálf. Það var mikil upplifun að sjá þessa stóru keppni og sjá hve fjölbreytt iðn- og starfsnám getur verið. Það skemmdi heldur ekki fyrir að hafa getað fylgst með Írenu og hennar frábæra árangri,“ sagði skólameistari.

„Í október komust þeir Orri Sigurbjörn Þorkelsson og Víkingur Þorri Sigurðsson áfram í úrslit í stærðfræðikeppni framhaldsskólanna sem fer fram á næstu önn. Orri Sigurbjörn keppir á neðra stigi en Víkingur Þorri á efra stigi.

Víkingur Þorri keppti einnig í fyrra og var þá efstur í forkeppninni á neðra stigi og í kjölfarið tók hann þátt í Norrænu stærðfræðikeppninni en árangur hans þar tryggði honum síðan keppnisrétt í sex manna liði Íslands í Ólympíuleikunum í stærðfræði sem fór fram í Japan sl. sumar.

Eins og þetta sé ekki nóg af stærðfræðikeppnum hjá einum einstaklingi þá tók Víkingur Þorri þátt í Eystrasaltskeppninni í stærðfræði sem fór fram í Þýskalandi í nóvember sl.

Í VMA eru haldin sveinspróf á hverju ári í hinum ýmsu iðngreinum og í fyrsta skiptið var haldið sveinspróf hér í VMA í framreiðslu sl. vor. En jafnframt voru haldin sveinspróf t.d. í háriðn, pípulögnum, húsasmíði, rafvirkjun og vélvirkjun. Þá er sveinspróf í rafeindavirkjun hluti af lokaprófum nemenda og hér á sviðinu eru nemendur sem þreyttu það próf.

Allir nemendur sem útskrifast frá VMA gera lokaverkefni og eru þær margar hugmyndirnar sem hafa komið fram á þessu ári. Mörg af þessum lokaverkefnum reyna á samstarf, sköpun og frumkvöðlahugsun sem oft og tíðum hefur leitt til frekari þróunar hjá nemendum eða þeim fyrirtækjum sem þau hafa unnið verkefnin með. Ásamt því að skapa áhuga á ákveðnum viðfangsefnum sem leiða nemendur áfram inn í frekara háskólanám,“ sagði skólameistari.

„Í VMA er öflugt erlent samstarf sem hefur fest sig í sessi í skólastarfinu. Nemendur taka virkan þátt í þeim verkefnum og nemendur fá mörg tækifæri í gegnum erlent samstarf. Nemendahópur í háriðn var við nám í tvær vikur á Malaga á Spáni og er þessi námsheimsókn til Spánar orðinn hluti af námi nemenda í háriðn. Nokkrir nemendur hér í útskriftarhópnum hafa tekið þátt í ýmsum erlendum verkefnum, aðallega nemendur í rafiðn.

Í gegnum erlent samstarf fær starfsfólk jafnframt tækifæri til starfsþróunar bæði með því að taka þátt í ýmsum þróunarverkefnum og með því að fara í heimsóknir í aðra skóla. Þá fór starfsfólk VMA til Kaupmannahafnar sl. vor þar sem við kynntum okkur skólastarf í dönskum framhaldsskólum.

Að vanda tók VMA á móti mörgum einstaklingum og hópum á þessu ári sem komu í heimsókn til að kynna sér skólastarfið í VMA og á Íslandi. Til Akureyrar komu rúmlega hundrað manns á þessu ári í gegnum hin ýmsu verkefni sem VMA tekur þátt í og hátt í 100 nemendur og starfsfólk skólans farið erlendis.

Þá er vert að segja frá því að Haukur Eiríksson kennari og brautarstjóri í rafiðn fékk tilnefningu til Íslensku menntaverðlaunanna 2023 fyrir framúrskarandi iðn- og verkmenntun. Haukur var tilnefndur til verðlaunanna fyrir að leiða þróun rafiðnnáms í VMA með áherslu á farsæld nemenda og stöðugar umbætur í námi og kennslu og fyrir áhugaveða nálgun og frumkvöðlastarf í vinnustaðanámi. Þetta var þriðja árið í röð sem kennari frá VMA er tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna sem er mikil viðurkenning á því góða og faglega starfi sem hér fer fram,“ sagði Sigríður Huld.

Brautskráningarnemar

Skipting brautskráningarnema á brautir var sem hér segir:

Félags- og hugvísindabraut 2
Fjölgreinabraut 6
Íþrótta- og lýðheilsubraut 3
Listnáms- og hönnunarbraut 3
Náttúruvísindabraut 1
Viðskipta- og hagfræðibraut 3
Sjúkraliðabraut 6 (þar af 4 með viðbótarnám til stúdentsprófs)
Meistaranám 24
Húsasmíði 9
Rafeindavirkjun 16 (þar af 2 með viðbótarnám til stúdentsprófs)
Rafvirkjun fyrir vélfræðinga 8
Rafvirkjun 1 (einnig með viðbótarnám til stúdentsprófs)
Málmsuða 1
Stálsmíði 2
Viðbótarnám til stúdentsprófs 3