Visteyri – markaðstorg með notaðar vörur
Á dögunum fór ný vefsíða í loftið, visteyri.is, þar sem bæði er hægt að kaupa og selja notuð föt eða heimilismuni og fá sent um allt land. Á aðeins þremur vikum hafa 800 manns skráð sig á vefsíðuna, að sögn eigendenna.
Hugmyndin að Visteyri kviknaði þegar stofnendurnir þrír voru við nám erlendis og kynntust þar slíkum markaðstorgum. Þeir sáu í kjölfarið tækifæri til að opna sambærilega vefsíðu á Íslandi með það að markmiði að gera viðskipti með notaðar vörur einföld, þægileg og aðgengileg öllum, eins og segir í tilkynningu.
Í teyminu sem stendur að Visteyri eru Vilborg Ásta Árnadóttir, Elfa Rós Helgadóttir og Sigrún Dís Hauksdóttir og markmiðið var að þeirra sögn að opna stafrænt markaðstorg þar sem hægt væri að selja notaðar vörur á einfaldan hátt og versla eins og í hverri annarri netverslun. Þær eru búsettar á höfuðborgarsvæðinu en leggja áherslu á að allt landið sé undir.
„Það eina sem þarf að gera til að taka þátt er að stofna aðgang, en það er frítt og tekur enga stund, og svo getur þú byrjað að selja og kaupa. Notendur geta greitt fyrir vörur á öruggan hátt ásamt því að fá þær sendar um allt land. Þannig geta allir tekið þátt í hringrásarhagkerfi sem gengur út á að deila og endurnýta,“ segir Vilborg Ásta Árnadóttir.
Vilborg segir hugmyndina hafi sprottið upp þegar þær bjuggu í Kaupmannahöfn og nýttu sér svipuð markaðstorg þar til að kaupa og selja notaðar flíkur. Það hafi gert þeim kleift að versla á betra verði og á umhverfisvænni hátt. „Við sáum strax að svona markaðstorg vantaði á Íslandi og þá sérstaklega að bjóða upp á sendingu um allt land til að gera viðskipti með notað aðgengileg öllum óháð staðsetningu,” segir hún.
„Það er margt fleira framundan á Visteyri og við erum rétt að byrja. Við getum ekki beðið eftir að fá fólk inn til að hjálpa okkur að móta Visteyri og stuðla að hringrásarhagkerfi með notaðar vörur” segir Elfa Rós Helgadóttir einn stofnenda og eigenda markaðstorgsins.