Fréttir
Virðingarleysi, vitleysa, gerræði
16.09.2023 kl. 10:00
Jón Már Héðinsson fyrrverandi skólameistari Menntaskólans á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Jón Már Héðinsson, fyrrverandi skólameistari Menntaskólans á Akureyri, segir skýrslu stýrihóps mennta-og barnamálaráðherra um eflingu framhaldsskóla „vægast sagt vafasama forsendu fyrir því að leggja skólana niður.“ Hann er mótfallinn áformum um sameiningu framhaldsskólanna tveggja á Akureyri, MA og VMA, og segir þau virðingarleysi við það öfluga nám og starf sem unnið er í báðum skólunum.
Þetta kemur fram í ítarlegu og mjög fróðlegu viðtali við Jón Má á mbl.is í dag.
Hér eru nokkrar punktar úr viðtalinu:
- Jón Már tekur undir það sem formaður framhaldsskólakennara segir um skýrslu sem er lögð er til grundvallar ákvörðunar ráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, „að þar hafi menn bara búið til tölur og röklausar fullyrðingar sem staðreyndir, sem skýrsluhöfundar gefa sér svo sem einhvern útgangspunkt.“
- „Það er furðulegt hvernig skýrsluhöfundar og embættisfólk ráðuneytis hafa kokkað upp þessa skýrslu og telja ráðherra trú um að þessi árás, á þessa tvo skóla, auki farsæld og valmöguleika nemenda. Hér liggur annað að baki sem ekki er sagt og það er ekki heiðarlegt.“
- Jón Már gefur lítið fyrir meiningu þeirra sem segja að skólamenning og hefðir komi ekki í veg fyrir sameininguna. „Það eru kannski þeir sem hugsa skóla sem excel-skjal, sem láta sér detta svona bull í hug.“
- Jón Már segir langa hefð fyrir samstarfi skólanna á Norðurlandi. Til að mynda hafi ráðuneyti menntamála ráðgert að sameina skólana vorið 2015, en þá stóðu skólameistarar skólanna saman gegn áformunum og sannfærðu þáverandi menntamálaráðherra um að mun farsælla væri að auka samstarf milli skólanna.
- „Samstarf er mun skynsamlegri leið“
- „Þetta eru sömu hótanir og hafðar voru uppi vorið 2015, orðræðan kunnugleg en offorsið virðist meira nú.
- Allt regluverk í kringum fjárveitingar til skólanna er loðið og óljóst. Sem dæmi þá breytir ráðuneytið gjarnan leikreglum í miðjum leik.
- MA hafði fullt leyfi til að taka inn alla nemendur sem sóttu um skólann vorið 2022 og skólinn átti að fá fjárveitingu með þeim, sem virðast ekki hafa skilað sér, en það er ljóst að kostnaður við þessa nemendur hverfur ekki.
- Ekki er til skólasýn og skólastefna fyrir Ísland, hvernig skólastarf og skóla við viljum hafa í landinu. Á meðan svo er má búast við að ráðherrar hlaupi upp með svona gerræði á fjögurra ára fresti.
- Jón Már er ánægður með nemendur skólanna. Þeir þurfi að benda stjórnmálafólki á að nú fari að styttast í þingkosningar. „Ég vona að nemendur láti ekki þetta svokallaða fullorðna fólk kúga sig til hlýðni í svona vitleysu.“
Smellið hér til að sjá viðtalið við Jón Má á mbl.is