Vinnustofur við mótun Farsældarsáttmála
Foreldrum og forsjáraðilum barna og ungmenna gefst næstu daga kostur á að leggja sitt af mörkum til að stuðla að farsæld barna í sveitarfélaginu og efla samstöðu þeirra sem koma að málefnum barna og ungmenna. Fram undan eru þrjár vinnustofur sem fram fara í Verkmenntaskólanum á Akureyri þar sem unnið verður að mótun Farsældarsáttmála.
Það eru stjórn SAMTAKA, sem eru samtök foreldrafélaga grunnskólanna á Akureyri, og Heimili og skóli bjóða foreldrum og forsjáraðilum barna og ungmenna að taka þátt í vinnustofu við gerð Farsældarsáttmála. Vinnustofurnar eru þrjár og geta foreldrar valið hvaða vinnustofu þeir sækja því þær eru allar eins upp byggðar. Vinnustofurnar verða á mánudag, þriðjudag og miðvikudag, kl. 18:30-20:30 alla dagana. Óskað er eftir því að þátttakendur skrái sig í vinnustofurnar. Skráning í vinnustofurnar fer fram í gegnum Facebook-viðburði á vegum Heimilis og skóla.
Upplýsingar um Farsældarsáttmálann má finna á vef Heimilis og skóla - sjá hér.