Vinna við gagnaver gengur vonum framar
Framkvæmdir við byggingu gagnavers fyrirtækisins atNorth við Hlíðarvelli á Akureyri ganga vonum framar samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu. Vinna hófst um miðjan júlí, í vikunni voru síðustu þaksperrurnar í fyrstu byggingu gagnaversins reistar og af því tilefni var í gær efnt til reisugillis fyrir helstu samstarfsaðila, verktaka og starfsfólk þeirra.
Gagnaverið er steinsnar sunnan við höfuðstöðvar Norðurorku við Rangárvelli, handan Hlíðarfjallsvegar. Fyrsti áfangi er um 2.500 fermetrar í tveimur samtengdum byggingum, en fullbyggt verður gagnaverið í fimm byggingum. Að auki er gert ráð fyrir þremur skrifstofu- og þjónustuhúsum á lóð atNorth. Stefnt er að því að hefja starfsemi fyrir mitt næsta ár.
Góður vitnisburður
„Gagnaverið er það fyrsta sinnar gerðar á svæðinu og mun nýtast viðskiptavinum atNorth á margvíslegan hátt – sérstaklega þeim sem vilja tryggja landfræðilegann aðskilnað gagna sem eru þegar hýst í öðrum gagnaverum,“ segir í tilkynningunni.
Í reisugillinu þakkaði Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth, verktökum fyrir frábært starf og bæjaryfirvöldum fyrir skýra sýn við uppbygginguna að Hlíðarvöllum. „Framkvæmdir hafa gengið ótrúlega vel og maður trúir því varla, að í dag séu rétt um fjórir mánuðir frá samþykkt deiliskipulags fyrir svæðið. Sú staðreynd er góður vitnisburður um ykkur og gerir Akureyri að frábærum kosti fyrir þá sem vilja ráðast í uppbyggingu af hvaða tagi sem er,“ sagði Eyjólfur Magnús. Hann rifjaði upp forsendur þess að gagnaverinu var fundinn staður á Akureyri, en framboð á margvíslegri tækni- og rekstrarþjónustu var einn lykilþátta við staðarvalið auk tryggs framboðs og flutnings á raforku, með tilkomu Hólasandslínu, að sögn forstjórans.
Frekari verðmætasköpun
Vaktin er athygli á því í tilkynningu fyrirtækisins að allt timbur í burðarvirki kemur úr sjálfbærum skógum á Norðurlöndum og steinullin frá Steinull á Sauðarkróki kemur úr umhverfisvottaðri framleiðslu. Markmiðið sé að lágmarka kolefnisspor framkvæmdarinnar með innlendum byggingalausnum og árvekni gagnvart umhverfinu.
Þá leiti atNorth nú samstarfsaðila til að nýta varmamyndun í gagnaverinu til frekari verðmætasköpunar í grænum iðnaði sem gæti minnkað kolefnisfótspor verkefnisins enn frekar.
Helstu verktakar við byggingu gagnaversins eru byggingafyrirtækin Perago Bygg og Lækjarsel, lagnafyrirtækið Áveitan, rafverktakinn Rafeyri og jarðvinnuverktakinn Finnur ehf. Hönnun hefur verið í höndum AVH, Raftákns, Verkíss á Akureyri og Elhönnunar.
- Frétt Akureyri.net 5. apríl – Gagnaver atNorth rís á Akureyri