Vínbúðinni í miðbænum lokað til frambúðar
Vínbúðinni við Hólabraut í miðbæ Akureyrar verður lokað þegar Áfengis- og tóbaksverslun ríksins (ÁTVR) opnar nýja verslun í verslunarkjarnanum Norðurtorgi nyrst í bænum. Eftir sem áður verður því ein áfengisverslun – Vínbúð – í bænum.
Ekki er endanlega ljóst hvenær nýja verslunin verður opnuð en vonast er til að það verði fyrri hluta næsta mánaðar, að því er Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, tjáði Akureyri.net.
Áfengisverslun ríkisins hefur verið til húsa við Hólabraut síðan vorið 1961 – í tæp 64 ár. Húsnæðið þykir ekki nægilega hentugt og langt er síðan stefnt var að því að flytja verslunina. Í lok árs 2009 var auglýst eftir húsnæði fyrir verslunina en öllum tilboðum sem þá bárust var hafnað.
Það var svo í desember 2022 sem Akureyri.net greindi frá því að starfsemin yrði flutt í nýbyggingu á Norðurtorgi – sjá fréttina hér. Þá stóð til að nýja verslunin yrði opnuð vorið 2024 en nú er komið að því. Hún verður í 700 fermetra rými.
Nýbyggingin við Norðurtorg nyrst í bænum þar sem ný Vínbúð verður opnuð í næsta mánuði. Mynd: Skapti Hallgrímsson