Vínbúðarhúsið: EBAK, BSO, AA eða KFC?

Húseignin að Hólabraut 16, þar sem Vínbúð ÁTVR starfaði um árabil áður en hún var flutt að Norðurtorgi, verður selt eins og fram kom í frétt akureyri.net fyrir nokkru. Ýmsir hafa hugsað sér gott til glóðarinnar og var fróðlegt og skemmtilegt að fylgjast með athugasemdum lesenda þegar frétt um söluna var deilt á Facebook-síðu akureyri.net.
Sumir bíða ekki boðanna, vilja grípa gæsina strax og hún gefst. Bæjarráð fjallaði á fundi síðastliðinn miðvikudag um undirskriftalista með 24 undirskriftum þar sem gönguhópurinn Club 1010 skorar á bæinn að aðstoða Félag eldri borgara á Akureyri við kaup á húsnæðinu. Bæjarráð hafnaði erindinu.
Leigubílastöð, matvörubúð eða félagsstarf?
En hvað vilja Akureyringar sjá í þessu húsnæði? Best að skoða athugasemdirnar, sem urðu samtals 140. Hugmyndirnar eru þó ekki jafn margar því nokkrar tillögur komu fyrir aftur og aftur.
- Eitthvað á fjórða tuginn nefndu einhvers konar matvörubúð/kjörbúð og þá jafnvel með einhverju vöruúrvali úr versluninni sem var þarna áður. Bónus og Prís nefnd sérstaklega nokkrum sinnum. Einn nefndi sérverslun með kjöt og ost.
- Eitthvað á annan tuginn nefndu BSO, að þarna gæti verið nýr samastaður fyrir leigubílastöð. Í nokkrum tilvikum voru BSO og verslun nefnd saman sem góður kostur. Einn nefndi leigubílastöðina Ríkisleiðir.
- Nokkrir nefndu félagsmiðstöð fyrir eldri borgara og þar af einn félagsmiðstöð bæði fyrir yngri og eldri. Nokkrar rökræður urðu einnig um það hvort húsnæðið og framkvæmdin hentaði fyrir Félag eldri borgara.
- KFC kemur reglulega fyrir í svona athugasemdum þegar spurt er hvað fólk vill sjá í hinu eða þessu húsnæðinu. Nokkrir nefndu kjúklingastaðinn.
- Keiluhöll virðist vera eitthvað sem Akureyringar sakna því slík var nefnd í nokkur skipti, þar af í eitt skipti sem keiluhöll með vínveitingaleyfi.
- Einhverjir hafa ekki gefið upp vonina um að þarna verði aftur vínbúð. Nokkrir nefndu þá ósk og einn benti á að margir eigi ekki bíla til að fara í sveitina (Norðurtorg).
- Tvisvar í það minnsta var bent á að AA-samtökin vantaði húsnæði, táknrænn staður, sagði annar.
- Alvöru snókerbúlla með öllu tilheyrandi í enskum stíl
- Veitingastaðurinn Ríkið, kebabstaður, pizzastaður eða kaffihús (með barnaleiksvæði)
- Samgöngumiðstöð, en einn sem nefndi þá hugmynd kvaðst ekki bjartsýnn því „við búum við fullkomið áhugaleysi bæjaryfirvalda um alvöru almenningssamgöngur,“ eins og það var orðað.
- Verslun með hugvíkkandi efni
- Íbúðarhús, tvær til þrjár íbúðir
- Einn höfðaði til Karlakórs Akureyrar-Geysis um að opna söngbar.
- Rífa og byggja hótel, gistiheimili
- Bensínstöð
- Fangelsi
- Hestaleiga eða húsdýragarður
- Skóbúð
- Hjálpartækjaverslun með næturklúbbi og litlum herbergjum á efri hæðinni
- Sjoppa
- JMJ
- Kaffibrennsla
Einhverjar af ofantöldum tillögum eru settar fram í spaugi og/eða með haldhæðni í huga, eins og einnig má gera ráð fyrir með eftirfarandi hugmyndir:
- Hólfa niður í gistieiningar, stórvantar svoleiðis í miðbænum.
- Rífa húsið og byggja nýtt fimm hæða hús með íbúðum, og verslunum/þjónustu á neðstu hæð.
Þegar upp er staðið er það svo auðvitað undir kaupanda hússins, þegar og ef slíkur finnst, hvaða starfsemi þarna verður í framtíðinni.