Fara í efni
Fréttir

Vínbúð opnuð á Norðurtorgi 2024

Gengið frá samningi í morgun. Frá vinstri: Auðunn Svafar Guðmundsson, Ari Pétursson og Pétur Bjarnason frá Klettási/Norðurtorgi, Ívar J. Arndal og Sveinn V. Árnason frá ÁTVR.

Vínbúð verður opnuð í verslunarkjarnanum Norðurtorgi á Akureyri vorið 2024. Forsvarsmenn Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) gengu í morgun frá samningi þar að lútandi við Klettás, eiganda Norðurtorgs.

Vínbúðin verður í 700 fermetra rými í nýbyggingu sem rís norðvestan við núverandi húsnæði Norðurtorgs. Ekki liggur fyrir hvort gamla Vínbúðin við Hólabraut verði starfrækt áfram eftir að sú nýja verður opnuð.

„Það hefur ekki verið tekin ákvörðun hvort við munum hafa eina eða tvær Vínbúðir á Akureyri enda nokkuð langt í að Norðurtorgið verði tilbúið,“ segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, við Akureyri.net. „Væntanlega verður möguleikarnir skoðaðir vandlega þegar nær dregur að ný Vínbúð verði opnuð,“ segir hún.