Fara í efni
Fréttir

Viltu hafa fataskipti á Amtsbókasafninu?

Fólki býðst að hafa fataskipti á Amtsbókasafninu í dag, laugardag! Sannarlega óhefðbundið þar á bæ, en rétt að taka fram strax að um er að ræða fatamarkað í tilefni Evrópsku nýtnivikunnar sem lýkur á sunnudaginn.

Það er Pik Nik fatadeilihagkerfið sem stendur að viðburðinum í samstarfi við Amtsbókasafnið.

„Langar þig í föt en viltu á sama tíma draga úr fatasóun? Mættu þá með spjarirnar á fataskiptimarkað á Lestur Bistro á Amtsbókasafninu laugardaginn 26. nóvember frá kl. 12-15,“ segir í kynningu á viðburðinum.

„Að draga úr fatasóun er gott fyrir umhverfið. Fatnaður í dag er mikið til búinn til úr pólýester, næloni, akríl og fleiri efnum sem eru í grunninn plastþræðir. Plastþræðirnir losna úr efnunum í þvotti og enda með skolvatninu í hafinu. Ef slíkum fataefnum er hent í sorpið brotna þau ekki niður frekar en annað plast. Verndum umhverfið okkar, veljum náttúruleg efni eða drögum úr fatasóun og óþarfa þvotti.“

Fataskiptin ganga þannig fyrir sig að fólk mætir með heilar og hreinar flíkur „sem það hefur ekki not fyrir lengur (eða hefur aldrei haft not fyrir) og finnur önnur föt sem henta því í staðinn. Öll fötin verða lögð í eitt púkk. Öll geta gefið eins mikið af fötum og þau vilja og fengið í staðinn eins mikið af fötum og þau vilja. Það er líka í góðu lagi að gefa föt en fá ekkert í staðinn eða öfugt.“

Vilja vekja fólk til vitundar

Nýtnivikan er samevrópsk og er ætlað að vekja fólk til vitundar um nauðsyn þess að draga úr magni úrgangs m.a. með því að lengja líftíma hluta, samnýta hluti og stuðla almennt að því að hlutir öðlist framhaldslíf frekar en að enda sem úrgangur. Hún er haldin með ýmsum atburðum sem stuðla að vitundarvakningu. Áhersla er lögð á að draga úr, endurnota og endurvinna.

Þema ársins 2022 er sjálfbærni og hringrás textíls undir slagorðinu Sóun er ekki lengur í tísku!  „Textíliðnaðurinn er einn sá umfangsmesti í heimi og honum fylgir gríðarleg efnanotkun, ferskvatnsmengun og losun gróðurhúsalofttegunda svo það skiptir miklu að draga úr sóun textíls.“

  • Að Evrópsku nýtnivikunni 2022 koma, Umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar, Atvinnu-, markaðs- og menningarteymi Akureyrarbæjar, Amtsbókasafnið á Akureyri, Vistorka, Rauði Krossinn, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Listasafnið á Akureyri, Sigrún hannyrðapönkari, Pik Nik fatadeilihagkerfið og Fab Lab Akureyri.