Fara í efni
Fréttir

Vill sameina stéttarfélög í Eyjafirði í eitt

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar - Iðju.

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambands Íslands og Einingar-Iðju, segir nauðsynlegt að sameina verkalýðs- og stéttarfélög og telur að á Eyjafjarðarsvæðinu eigi að vera eitt slíkt félag. Björn sagði þetta í þættinum Landsbyggðunum á N4, þar sem hann var gestur Karls Eskils Pálssonar.

„Um aldamótin voru aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands 36 en í dag eru þau 19, þannig að þeim hefur fækkað um 17 á þessum árum. Ég tel að þeim fækki enn frekar á næstu árum, með sameiningum. Starfsemi félaganna hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum, umgjörðin er miklu fjölþættari. Stærri og sterkari félög geta betur sinnt sínu hlutverki að mínu viti,“ sagði Björn í þættinum, að því er fram kemur á vef N4.

Björn segir sameiningarmál rædd reglulega, þegar fulltrúar verkalýðsfélaga hittast „og satt best að segja er áhuginn misjafnlega mikill hvað þetta varðar. Ég tel að til dæmis hérna á Eyjafjarðarsvæðinu eigi að vera eitt stéttarfélag og þá deildarskipt. Þannig sameinað félag verður mun hagkvæmara í rekstri og þjónustan betri og skilvirkari. Ég er sannfærður um að þessi þróun heldur áfram, félög sameinist,“ sagði Björn.