Vilja byggja upp listnám á háskólastigi
Rektor Listaháskóla Íslands segir þörf á háskólanámi í listgreinum á landsbyggðinni vera til staðar, allt sem þurfi er vilji stjórnvalda og fjármagn. Þetta kemur fram á RÚV, þar sem fjallað er um málþing um listnám á háskólastigi á Akureyri haldið var í gær í Listasafninu á Akureyri.
Lagt er upp með þá hugmynd að koma á nánara samstarfi milli Háskólans á Akureyri og Listaháskóla Íslands með það fyrir augum að byggja upp listnám í bænum. Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor LHÍ, segir samvinnuna í raun hafna og í vetur hafi í fyrsta sinn verið kennd listkennsla við kennaradeild HA.
„Hugmyndin kemur að norðan og hún er borin undir mig. Það er þannig að þegar maður stýrir þjóðarskóla í listum verður maður að gera sitt besta til þess að svara sem mestum þörfum sama hvaðan þær koma. Þannig að ég var alveg tilbúin að fara í þetta samtal,“ segir Fríða Björk við RÚV.
Fríða segir innviði á Akureyri vera góða og þar sé gott framboð af sterkum menningarstofnunum sem hún geri ráð fyrir að séu viljugar að vinna að slíku verkefni með HA og LHÍ.
Smellið hér til að lesa frétt RÚV.