Fara í efni
Fréttir

Viðvörun vegna mjög slæmrar veðurspár

Miklar skemmdir urðu víða á Oddeyri í flóðunum um daginn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Mjög vondu veðri er spáð á sunnudaginn og hefur Veðurstofan gefið út appelsínugula viðvörun. Að sögn veðurfræðings verður ekkert ferðaveður á norðan- og norðaustanverðu landinu og búast má við að loka þurfi vegum.

Athygli er m.a. vakin á þessu á vef Akureyrarbæjar. 

„Veðurútlit fyrir sunnudag er fremur ískyggilegt og rétt að hvetja fólk til að ganga tryggilega frá eignum sínum svo ekki hljótist tjón af,“ segir þar.

„Háflóð á Akureyri að morgni sunnudags verður kl. 10.17 og aftur kl. 22.30 um kvöldið. Búast má við mikilli ölduhæð í sterkri norðanátt sem spáð er, með mikilli ofankomu og hitastig verður um eða yfir frostmark.

Minnug þess hvernig fór sunnudaginn 25. september þegar sjór flæddi yfir hluta Oddeyrar, er rétt að vera vel á verði, gera viðeigandi ráðstafanir vegna flóðahættu og ganga vel frá öllu lauslegu til að fyrirbyggja tjón.“

Smellið hér til að sjá viðvörun Veðurstofunnar.