Viðhaldi mannvirkja sinnt eins og kostur er
Andri Teitsson, bæjarfulltrúi og formaður Umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrar, segir viðhaldi íþróttamannvirkja í bænum sinnt eins og kostur er. Hann reiknar með að hratt og vel verði brugðist við ábendingu um leka í Boganum, en leki í stúkunni á Þórsvelli sé hins vegar snúnara vandamál.
Reimar Helgason, framkvæmdastjóri Íþróttafélagsins Þórs, gagnrýndi í samtali við Akureyri.net í fyrradag, að viðhaldi mannvirkja í bænum væri ekki sinnt sem skyldi eða þau ekki kláruð, til dæmis hefði ekki enn verið sett þak á stúkuna á Þórsvellinum eins og gert var ráð fyrir á sínum tíma. Stjórnmálamenn kláruðu ekki verkefnin, sagði hann.
Andri Teitsson nefnir að á Akureyri séu 22 íþróttafélög sem bjóði upp á 32 íþróttagreinar „sem hlýtur að vera einsdæmi í 19 þúsund manna sveitarfélagi á heimsvísu. Og Akureyrarbær hefur byggt upp og útvegað aðstöðu fyrir næstum allar þessar greinar. Sumir spyrja hvort við séum að dreifa kröftunum of víða, en á sama tíma eru óskir um enn fleiri íþróttagreinar, og eitt nýjasta dæmið er rafíþróttir, sem bærinn hefur stutt Þórsara til að koma á fót, enda talið henta vel fyrir ákveðinn hóp ungmenna,“ segir hann.
300 milljónir í skíðalyftuna
Sífellt sé unnið að uppbyggingu íþróttamannvirkja. „Til dæmis er nú verið að byggja aðstöðuhús á svæði Siglingaklúbbsins Nökkva, þar á eftir verður lokið við félagsaðstöðu í skautahöllinni, og eftir 2-3 ár hefst stórfelld uppbygging á KA svæði. Einnig er gert ráð fyrir að Akureyrarbær leggi fram yfir 300 milljónir króna á næsta ári vegna nýju stólalyftunnar í Hlíðarfjalli,“ segir Andri og bendir á, til fróðleiks, að bærinn standi einn að rekstri skíðasvæðisins, á sama tíma og sveitarfélög með um það bil 200 þúsund íbúa standi að skíðasvæðunum í Bláfjöllum og Skálafelli.
„Viðhaldi íþróttamannvirkja er sinnt eins og kostur er og við reiknum með að hratt og vel verði brugðist við ábendingu um leka í Boganum. Leki í stúkunni á Þórsvelli er snúnara vandamál og ekki einu sinni víst að þak á stúkuna myndi leysa það, enda myndi að sjálfsögðu áfram berast snjór inn á hana í austlægum áttum. Af stærri viðhaldsverkefnum má nefna sem dæmi að á undanförnum tveimur árum hafa verið lagðar yfir 100 milljónir króna í endurnýjun á íþróttahúsi Glerárskóla, þar sem Þór og fleiri félög stunda æfingar.
Á heildina litið tel ég því að mjög vel sé stutt við íþróttastarf á Akureyri þótt alltaf megi gera ennþá betur,“ segir Andri Teitsson.