Fara í efni
Fréttir

Við megum ekki gleyma hinu mannlega

Björn Snæbjörsson hætti sem formaður Einingar-Iðju á aðalfundi félagsins á dögunum eftir 40 ár í framlínu verkalýðsbaráttunnar. Hann telur að landsbyggðin þurfi að vera á verði gagnvart mögulegri ásælni stórra félaga í Reykjavík. Þetta segir Björn í ítarlegau, fróðlegu og bráðskemmtilegu viðtali sem birtist á Vinnunni, veftímariti Alþýðusambands Íslands í dag, á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins.

„Við á landsbyggðinni þurfum að átta okkur á stöðunni. Stækkum við ekki og eflum okkur munu stóru félögin í Reykjavík breyta sér í landsfélög og gleypa þá litlu. Þá verða félögin úti á landi útibú frá höfuðstöðvunum í Reykjavík. Dettur einhverjum í hug að það sé betra fyrirkomulag? Sameining er nauðsynleg og félög munu neyðast til að sameinast áður en langt um líður. Félagsfólk mun ekki sætta sig við óbreytt ástand, það greiðir félagsgjaldið til að fá þjónustu. Smærri félög skortir sérhæfingu til að veita þá þjónustu og það er fólkið sem á félagið sitt,“ segir Björn þungur á brún, eins og það er orðað í viðtalinu.

Jákvæð og afgerandi áhrif

Aðspurður kveðst Björn telja að mjög skorti á að landsmenn geri sér almennt grein fyrir því að helstu stoðir nútíma velferðarríkis séu reistar á réttindabaráttu verkafólks. „Þetta eru ekki verk pólitíkusa. Kjörin og réttindin hafa fengist með linnulausri baráttu. Við höldum þessum árangri ekki nógu vel á lofti. Oft erum við upptekin af neikvæðum hlutum í forustu hreyfingarinnar. Af hverju ættu félagsmenn að vera ánægðir ef forustan er það ekki? Við höfum gert marga frábæra samninga, við höfum náð mjög miklum árangri og við höfum haft afgerandi áhrif á mótun samfélagsins, almenningi öllum til heilla. Auðvitað eigum við að segja frá þessu og standa keik fyrir því sem við gerum og höfum gert.“

Björn með rauða fánann á lofti í kröfugöngu á Akureyri 1. maí árið 2017. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Neftóbak og hurðaskellir

Björn kveðst hafa kynnst mörgum skemmtilegum og sérkennilegum persónuleikum á sínum langa ferli. Hann rifjar upp gott samstarf við mikla foringja á borð við Björn Grétar Sveinsson, þáverandi formann Verkmannasambands Íslands, sem síðar sameinaðist Landssambandi iðnverkafólks og Þjónustusambandi Íslands í Starfsgreinasambandinu, Sigurð Ingvarsson, verkalýðsljón til áratuga á Austurlandi, Hervar Gunnarsson á Akranesi, Ragnar Sigurðsson á Ísafirði, Halldór Björnsson heitinn, síðasta formann Dagsbrúnar, Sigurð Bessason, Eflingarformann um 20 ára skeið, Hrafnkel Jónsson heitinn, félagsmálafrömuð, verkalýðsleiðtoga og stjórnmálamann á Eskifirði, Kristján Gunnarsson í Keflavík og Rögnu Bergmann heitna sem var formaður Verkakvennafélagsins Framsóknar til margra ára og um skeið fyrsti varaforseti ASÍ. Hann segir að sambúðin við forseta ASÍ hafi almennt verið friðsamleg og nefnir Benedikt Davíðsson heitinn, Grétar Þorsteinsson, Ásmund Stefánsson og Gylfa Arnbjörnsson. Björn fer fögrum orðum um Drífu Snædal, sem hann starfaði með í sex ár er hún var framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, áður en hún var kjörin forseti ASÍ árið 2018. Björn telur afsögn hennar í ágústmánuði 2022 hafa verið verkalýðshreyfingunni mikið áfall.

Núverandi seðlabankastjóri og vasareiknivélin

Og svo er það goðsögnin sjálf, Guðmundur J. Guðmundsson - Gvendur Jaki. „Já, já, ég vann með Jakanum. Hann var mikill karakter,“ segir Björn. „Ég man eftir að hafa komið inn á skrifstofu til hans í einhverri kjaradeilunni. Skrifborðið hans var alveg autt, ekki á því svo mikið sem pappírssnifsi. Hann hallaði sér aftur í stólnum, tók í nefið með talsverðum látum og kastaði síðan tóbakskorninu af handarbakinu aftur fyrir sig. Við borðið sat ungur og nýráðinn aðstoðarmaður hans, Ásgeir Jónsson, núverandi seðlabankastjóri. Jakinn ruddi út úr sér dimmum rómi alls kyns hugmyndum og upphæðum sem Ásgeir reiknaði út á pínulitla vasareiknivél. Það var kostuleg sjón.“

Aðför að verkalýðshreyfingunni

Björn segir blessunarlega fá dæmi þess að atvinnurekendur brjóti meðvitað gegn réttindum og umsömdum kjörum starfsfólks. „Hér koma vissulega upp erfið mál sem stundum kalla á beina aðkomu lögmanna sem starfa fyrir félagið. Afstaða okkar grundvallast á því að við lítum ekki á atvinnurekendur sem óvini okkar. Án þeirra væri engin vinna og ekkert stéttarfélag! Með þessu erum við ekki að ganga í eina sæng með atvinnurekendum, öðru nær. Ég hef reyndar oft haldið því fram að krefjast ætti þess að verðandi atvinnurekendur fari á námskeið um réttindi sín og skyldur. Reynsla okkar er sú að við náum bestum árangri með því að leysa úr málum æsingalaust. Og reynsla okkar er einnig mjög eindregið sú að erfið mál verði enn þá snúnari viðfangs ef farið er með þau í fjölmiðla. Trúverðugleiki okkar er undir því kominn að við stöndum fagmannlega að verki þegar inngripa er þörf í erfiðum og iðulega mjög persónulegum málum.“

Yfirgengileg orðræða veldur skaða

Þetta samtal Björns við Vinnuna fer fram áður en framhaldsþing ASÍ er haldið í lok apríl. Líkt og alkunna er leystist 45. þingið upp haustið 2022 vegna innbyrðis átaka í verkalýðshreyfingunni. Fór svo að þinginu var frestað á meðan leitað var sátta og fram fór umræða um leiðina fram á við.

„Gegnum árin hafa verið uppi deilur innan verkalýðshreyfingarinnar – stundum hafa þær verið hatrammar en oftast hafa þær beinst inn á við. Þetta hefur nú breyst. Nú er deilunum beint út á við og orðræðan hefur á köflum verið yfirgengileg. Félagsmenn hafa komið til mín og sagt að þeir vilji ekki svona umræðu innan sinnar hreyfingar. Þessi orðræða skaðar okkur og fælir fólk frá þátttöku. Hrein skoðanaskipti á eðlilegu íslensku máli eru af hinu góða en skítkast og persónuárásir skemma.“

Hann kveðst hæfilega bjartsýnn á sættir innan verkalýðshreyfingarinnar. „Mér þótti mjög sárt að sjá félaga mína ganga af þingi ASÍ. Margt af því fólki á eftir að sjá eftir því að hafa gert þetta og reyndar eru einhverjir þegar teknir að gera það. Verði hægt að sameina hreyfinguna á ný tekur það tíma. Þá verður fólk líka að geta talað saman með eðlilegum hætti. Við megum aldrei telja einstaklingana mikilvægari en hópinn. Einstaklingar sem telja sig stærri en hópinn eru ekki góðir til forustu.“

Björn Snæbjörnsson fremstur í flokki við upphaf kröfugöngu 1. maí á Akureyri árið 2008. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Starf, hugsjón, lífsstíll

Björn segir það sína reynslu að aðeins þau sem hafa „bullandi áhuga“ á verkalýðsmálum endist í þessu starfi. „Þeir sem eingöngu líta á þetta sem atvinnu endast ekki lengi. Þetta er allt í senn starf, hugsjón og lífsstíll. Það voru vissulega meiri tilfinningar í samningaviðræðunum hér á árum áður. Þá var ekki treyst svo mjög á útreikninga jafnvel í smæstu málum eins og nú. Mér finnst við oft draga fram lífið í Excel. Auðvitað hefur margt breyst til batnaðar en ég tel að gæti eigi hófs í allri tæknihyggjunni. Við megum ekki gleyma hinu mannlega,“ segir Björn.

Ánægjuleg samskipti við andstæðingana

Hann talar vel um viðsemjendur sína. Þar hafi að vísu ekkert breyst – aldrei séu forsendur til að bæta kjör launafólks. Sækja þurfi hverja einustu krónu með töngum. Hann rifjar upp að Þórarinn V. Þórarinsson, þá framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands forvera Samtaka atvinnulífsins, hafi oft verið harður í horn að taka og lifað sig inn i samningaviðræðurnar með hurðaskellum og tilheyrandi leikrænum tilburðum. Aðspurður kveðst hann hafa átt ánægjuleg samskipti við andstæðinga sína þegar stigið var upp frá samningaborðinu. Þar hafi hann ekki síður kynnst skemmtilegu fólki og skrautlegum karakterum. Björn segir Halldór Benjamín Þorbergsson, sem nýverið hætti sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sleipan samningamann og hreint bráðskemmtilegan viðræðu.

Með félagsfólki í skemmtiferð í Flatey á Skjálfanda.

Fráleitt umhverfi kjarasamninga

Björn nefnir miklar og löngu tímabærar breytingar á öllu umhverfi kjarasamninga í landinu. „Þetta var beinlínis ómanneskjulegt hér lengi framan af. Við héngum yfir þessu sólarhringum saman. Við máttum ekki fara út úr húsi. Ég man eftir 54 klukkustunda samningalotu. Einhverju sinni, sennilega 1988, komst ljósmyndari af Mogganum einhvern veginn inn hjá sáttasemjara og birti mynd af samningamönnum sem sváfu á gólfinu og undir borðum með úlpur sínar fyrir kodda. Þetta var algjört brjálæði. Ég man eftir því að hafa beðið í heilan sólarhring eftir einni setningu í samningum. Því var stundum haldið fram að þetta gæti ekki verið svo slæmt þar sem við værum nú að spóka okkur í Reykjavík. En þannig var það nú ekki. Í þá daga voru menn í fullri vinnu og viðræður hófust ekki fyrr en komið var undir kvöld. Oft hafði maður ekkert við að vera í Reykjavík og var bara í einhverju hangsi fram eftir degi. Þetta var hryllileg tímaeyðsla,“ segir Björn og fagnar því að loks hafi verið horfið frá þessu glataða fyrirkomulagi. „Í síðustu samningum sem við kláruðum í desember voru vinnubrögð allt önnur og betri. Nú hefst vinnan að morgni dags og fyrirkomulagið er allt fastara í formi.“ Björn ber lof á Aðalstein Leifsson ríkissáttasemjara. „Skipulagið var til algjörrar fyrirmyndar hjá honum og embættinu öllu.“

Stjórnlaust brjálæði á samfélagsmiðlum

Björn er ekki mikill aðdáandi samfélagsmiðla. Telur þá raunar neikvætt afl í samfélaginu. „Orðræðan er alveg yfirgengileg. Fólk hraunar yfir aðra án þess að hafa hundsvit á því sem það er að fjalla um. Síðan fylgja aðrir í kjölfarið og þannig magnast þetta upp og verður að stjórnlausu brjálæði.” Björn og félagar hafa kynnst þessu en það er ekki i eðli hans að taka slíkri framkomu þegjandi. „Ég hef hringt í fólk sem hefur verið að djöflast á okkur á samfélagsmiðlum. Þá verður nú oftast fátt um svör. Ég hef líka stoppað fólk á götu sem hefur látið ófögur orð falla um mig eða hreyfinguna. Þá taka nú bara ýmsir á rás! Almennt þora þeir sem lengst ganga ekki að standa við ummæli sín persónulega,“ segir hann og dæsir.

Smellið hér til að lesa allt viðtal Vinnunnar við Björn.