„Við erum mjög glöð, þakklát og auðmjúk“
Skógarböðin glæsilegu við rætur Vaðlaheiðar gegnt Akureyri voru opnuð í hádeginu í dag. Hjónin Finnur Aðalbjörnsson og Sigríður María Hammer hafa staðið í ströngu ásamt fjölda fólks og sú fallega stund rann upp þegar klukkan sló tólf, að Sigríður klippti á borða við innganginn.
„Þetta er langþráður dagur,“ sagði Sigríður þegar Akureyri.net rabbaði við þau hjón eftir að fyrstu gestirnir voru farnir ofan í. „Við erum mjög glöð, þakklát og auðmjúk.“
Allir ætluðu að gera allt, en ...
Þau hjón höfðu horft á heitt vatn seytla út úr Vaðlaheiðargöngunum í nokkur ár, renna til sjávar og gagnast engum, þegar hugmyndin að ævintýrinu um Skógarböðin kviknaði. „Allir ætluðu að gera allt, en enginn gerði neitt,“ segir Finnur, sem er þekktur fyrir að láta verkin tala. „Svo ætluðu allir að gera allt þegar við vorum byrjuð, það er bara týpískt,“ bætir hann við.
Þau hófust handa fyrir rúmlega hálfu öðru ári, í september 2020. „Þá kaupum við þetta land og hlutirnir gerðust hratt,“ segir Finnur. Einni eða tveimur vikum eftir að þau eignuðust landið voru þau ákveðin í að ráðast í verkefnið.
Vinnan hefur tekið ótrúlega skamman tíma að margra mati, en „við hefðum getað gert þetta enn hraðar!“ segir Finnur. „Við hefðum getað byggt þetta upp á einu ári, með smá heppni,“ segir hann.
Ætluðum ekki að vera svona stórtæk
Sigríður segir þau hafa fundið fyrir mjög miklum meðbyr í samfélaginu allar götur síðan verkið hófst. „Mjög margir hafa komið að þessu verkefni, það hefur ekki alltaf verið auðvelt en öll vandamál sem upp komu voru leyst. Hér hafa allir lagt lóð á vogarskálarnar og verið tilbúnir að vinna mikið; alla virka daga, allar helgar og alla helgidaga síðan við byrjuðum! Allir gáfu sig af fullum krafti í verkefnið strax frá byrjun og voru ákveðnir í að hjálpast að.“ Það sé stór hluti ástæðunnar fyrir því að staðurinn varð að veruleika á svo stuttum tíma.
„Við ætluðum ekki að vera svona stórtæk,“ segir Sigríður. „Við erum miklir vatnskettir, höfum mikið verið í lónunum á Íslandi og farið á baðstaði um allan heim. Okkur finnst það æðislegt og ætluðum í raun bara að byggja svona stað á sveitabæ sem við eigum rétt við Hjalteyri út með firði, bara fyrir okkur prívat, en í vikunni eftir að við keyptum þetta land og löbbuðum hérna inn í skóginn sagði Finnur: Þetta væri geggjaður staður fyrir náttúruböð. Útsýnið gæti ekki verið fallegra.“
Sigríður segist strax hafa nefnt að nær tveggja kílómetra leið væri að heita vatninu. Hvort yrði ekki vesen að koma því á staðinn. Finnur var ekki lengi til svars, að hennar sögn. „Nei, nei, það verður ekkert vesen.“ Þeim sem þekkja Finn kemur svarið ekki á óvart!
Hélt þessi dagur kæmi aldrei!
„Það var vissulega ekki einfalt, en eins og með allt annað í þessu verkefni voru allir tilbúnir að vinna að því að leysa málið,“ segir Finnur. „Nú eigum við fullt af vatni, nóg til þess að stækka staðinn örlítið ef við vildum. Það væri frábært því ekki er hægt að nýta vatnið í neitt annað. Það er svo súrefnisríkt að það hentar ekki til húshitunar eða annars. Það er eiginlega ekki hægt að gera neitt við það nema baða sig upp úr því!“ segir Finnur.
Sigríður bætir við: „Vatnið er yndislegt til böðunar. Margir hafa haft orð á því, sérstaklega útlendingar sem hafa komið hingað og fengið að fara ofan í, að það sé einstök tilfinning; þeir segjast finna strax að engin aukaefni séu vatninu. Það er bara eins og það kemur úr náttúrunni og hefur góð áhrif á húðina.“
Finnur nefndi í spjallinu að mikill léttir fylgdi opnunardeginum, en „spennufallið kom í síðustu viku þegar fyrstu boðsgestirnir fóru ofan í. Ég hélt að þessi dagur kæmi aldrei! Mér fannst alltaf allt of mikið eftir.“
Skógarböðin verða opin alla daga ársins frá klukkan 10.00 að morgni til miðnættis.
Fyrstu viðskiptavinirnir, bandarísku hjónin Kim og Keating Pepper, ræða við Sigríði Maríu Hammer og Finn Aðalbjörnsson rétt áður en klippt var á borðann.
Heimir Ólafur Hjartarson tæknimaður frá Nortek tók að sér að binda hnút á hálsbindi Finns Aðalbjörnssonar ...
... og Tryggvi Aðalbjörnssonar sá um að koma því vel fyrir á bróður sínum. „Ég man ekki hvað það er langt síðan ég var síðast með bindi!“ sagði Finnur og hló.
Stolt hjón! Finnur Aðalbjörnsson og Sigríður María Hammer, sem klippti á borða við innganginn í Skógarböðin á slaginu klukkan 12 í dag.
Keating og Kim Pepper, fyrstu viðskiptavinirnir við afgreiðsluborðið.
Kristín Elva Viðarsdóttir og Áslaug Lind Guðmundsdóttir voru fyrsta til þess að skála í Skógarbögðunum eftir að opnað var í dag!