Vetur konungur minnti vel á sig
Öxnadalsheiði var lokuð í nærri einn og hálfan sólarhring vegna illviðris og snjóþunga, frá miðvikudagsmorgni þar til klukkan átta í gærkvöldi, fimmtudagskvöld. Vetur konungur minnti rækilega á sig, eins og það er orðað á vef Vegagerðarinnar. Vegfarendur gátu farið um Siglufjörð á meðan heiðin var lokuð og þar var ágætis færð þrátt fyrir nokkuð hvassviðri.
Verst í Bakkaselsbrekkunni
Starfsmenn Vegagerðarinnar og verktakar unnu hörðum höndum að því að opna Öxnadalsheiði fyrir umferð. Nota þurfti tvo mokstursbíla, veghefil og snjóblásara við verkið.
Grétar Ásgeirsson, verkstjóri á þjónustustöð Vegagerðarinnar á Akureyri, segir á heimasíðu Vegagerðarinnar í dag að þá hafi verið unnið að því að blása út ruðningum með snjóblásurum. Hann segir ástandið hafa verið verst í Bakkaselsbrekku.
„Veðrið hefur verið afleitt og það bætti fljótt í snjóinn, svo við gátum ekki opnað fyrr en í gærkvöldi. Það var einbreitt með útskotum í Bakkaselsbrekku í nótt en núna er umferð komin á báðar akreinar,“ segir Grétar en mikil umferð var um Öxnadalsheiðina í gærkvöldi og aftur í morgun.
Fjórir framhjá lokunarhliðum og festu sig
Nokkur dæmi voru um að vegfarendur sinntu ekki lokunarskyldu og töfðu þannig snjómokstur.
„Þótt það séu lokunarhlið eru alltaf einhverjir sem freistast til að fara á heiðina. Við urðum því að byrja á að draga fjóra bíla í burtu, sem höfðu farið inn fyrir lokunarhliðið. Næsta vetur verður sú breyting gerð að sett verður tvöfalt hlið ef það þarf að loka veginum um Öxnadalsheiði. Til að opna hliðið þarf fólk þá að fara út úr bílunum, sem vonandi verður til þess að það hugsi sig tvisvar um áður en það fer fram hjá lokunum,“ segir Grétar.
Eins og staðan er núna er ástandið á Öxnadalsheiði ágætt, að hans sögn. „Það er éljagangur og hægur vindur. Veðrið er þó fljótt að breytast og það gæti farið að skafa þegar líður á daginn eða í kvöld,“ lýsir Grétar.
Vegfarendur eru hvattir til að fylgjast vel með veðri og færð á www.vegagerdin.is, Twitter-síðu Vegagerðarinnar eða hafa samband við umferðarþjónustu Vegagerðarinnar í síma 1777.