Fara í efni
Fréttir

Verður öskudagur? Já, en óvenjulegur

Skrautlegir drengir á öskudegi fyrir nokkrum árum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Bolludagur var sannarlega í gær og vonandi kemur ekkert í veg fyrir að sprengidagur verði með hefðbundnu sniði með öllu sínu saltkjöti og öllum sínum baunum! En verður öskudagur? Sennilega er það sú spurning sem brennur hvað heitast á yngstu kynslóðinni.

Svarið er: Já, öskudagur verður haldinn hátíðlegur á morgun, þó með örlítið öðru sniði en venjulega. Glerártorg verður til dæmis ekki með hefðbundna dagskrá, frekar en stóru verslunarmiðstöðvarnar í Reykjavík, enda kemur gríðarlegur fjöldi alla jafna saman á slíkum samkomum. Í mörg ár hefur verið haldin söngva- og búningakeppni, og „kötturinn“ sleginn úr tunnunni. Svo verður ekki í ár, og krökkum stendur heldur ekki til boða að syngja í verslunum. „Okk­ur þykir þetta virki­lega leiðin­legt enda einn af okk­ar upp­á­halds­dög­um á Gler­ár­torgi. Nú þegar við erum von­andi á loka­metr­un­um í bar­átt­unni við Covid-19 telj­um við það mik­il­vægt að halda þetta út og sýna sam­fé­lags­lega ábyrgð með því að sporna við hóp­söfn­un og viðhalda að sama skapi því trausti sem fólk hef­ur borið til okk­ar í gegn­um und­an­farið ár þegar kem­ur að sótt­vörn­um,“ seg­ir í til­kynn­ingu Gler­ár­torgs um málið.

Mjög mismunandi virðist hvernig fyrirtæki ætli að haga málum, í ljósi sóttvarnarreglna. Blikkrás, einn vinsælasti staður barna á öskudegi í fjölda ára, hefur til að mynda tilkynnt að engin öskudagshátíð verði í ár.

Verslunarmenn í miðbænum hyggjast þrátt fyrir allt halda sínu striki, að minnsta kosti flestir, eftir því sem Akureyri.net kemst næst, enda miklu auðveldara við að eiga. Fáum verður hleypt inn í einu og börnum a.m.k. víðast hvar afhent innpakkað sælgæti.

Akureyrarbær skipuleggur enga dagskrá á öskudaginn frekar en undanfarin ár. Í tilkynningu er tekið fram að börn séu velkomin að syngja í nokkrum stofnunum bæjarins, svo sem í Ráðhúsinu við Glerárgötu, Amtsbókasafninu og í Sundlaug Akureyrar. „Foreldrar eru beðnir um að safnast ekki saman á þessum stöðum. Börn fædd 2005 og síðar eru undanskilin sóttvarnareglum, en ef fullorðnir þurfa einhverra hluta vegna að fylgja börnunum inn þá er nauðsynlegt að vera með grímu og halda tveggja metra fjarlægð.“

Lögreglan hefur einnig tilkynnt að öskudagslið séu velkomin á stöðina. Á vef embættisins segir að dagurinn hafi ávallt verið mjög líflegur á lögreglustöðvum embættisins „og hinar ýmsar kynjaverur mætt í hús, tekið lagið og þegið góðgæti fyrir. Á því verður ekki mikil breyting nú og eru allir velkomnir líkt og verið hefur. Biðjum við alla hins vegar að huga vel að sóttvörnum og bíða fyrir utan afgreiðslurnar séu aðrir hópar inni þannig að það sé ávallt bara einn hópur inni hverju sinni. Þá biðjum við fullorðna aðila að hinkra eftir sínu fólki utandyra.“

  • Embla, sem er á neðri myndinni, var í öskudagsliði sem blaðamaður myndaði fyrir nokkrum árum en syngur ekki opinberlega í ár!