Fara í efni
Fréttir

Verður göngugatan „alvöru“ göngugata?

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Ekki er loku fyrir það skotið að sá hluti Hafnarstrætis í miðbæ Akureyrar sem gjarnan er kallaður göngugatan verði „alvöru“ göngugata yfir sumarmánuðina.

Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, lagði fram tillögu á síðasta fundi bæjarstjórnar þess efnis að nefndur hluti Hafnarstrætis yrði alfarið lokaður vélknúnum ökjutækjum yfir sumartímann, með ákveðnum nauðsynlegum undantekningum. Meirihluti bæjarstjórnar var hins vegar ekki tilbúinn að taka skrefið til fulls að svo komnu máli en samþykkti að setja málið í ferli.

Tillaga Hildu Jönu hljóðaði þannig að samþykkum sveitarfélagsins „um verklagsreglur vegna tímabundinna lokanna gatna fyrir umferð vélknúinna ökutækja verði breytt með þeim hætti að lokun þess hluta Hafnarstrætis sem kallast göngugatan verði alfarið lokuð vélknúnum ökutækjum yfir sumarmánuðina, júní, júlí og ágúst. Á þeim tíma verði þó tryggt aðgengi fyrir P-merkt ökutæki fyrir hreyfihamlaða, ökutæki slökkviliðs og sjúkrabíla sem og aðgengi rekstraraðila vegna aðfanga.“ 

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, bæjafulltrúi VG, talaði á svipuðum nótum á Hilda Jana.

Meirihlutinn lagði þá fram tillögu sem samþykkt var með níu atkvæðum en tveir bæjarfulltrúar sátu hjá, Hilda Jana og Jana Salóme.

Tillaga meirihlutans var svohljóðandi:

„Bæjarfulltrúar meirihlutans leggja til að málinu verði vísað til skipulagsráðs og því falið að leggja mat á reynslu síðasta sumars á núgildandi reglum og taka til umræðu tillögur bæjarfulltrúa Hildu Jönu og Jönu Salóme. Skipulagsráð ljúki yfirferðinni og leggi fram tillögu til bæjarstjórnar í maí 2023.“