Kjarnafæði Norðlenska hækkar verð til bænda
Kjarnafæði Norðlenska hf. hefur gefið út verðskrá fyrir sauðfjárinnlegg á komandi hausti. Verðskráin inniheldur hækkun á grunnverðskrá frá fyrra ári ásamt því að greitt verður 8% álag á verðskrána samhliða greiðslu innleggs. Þetta þýðir að bændur eru að fá meira greitt fyrir sitt sauðfé.
Hækkun skilar sér ekki að fullu til neytenda
Ágúst Torfi Haukson, framkvæmdastjóri Kjarnafæðis Norðlenska, segir að ástæðan fyrir breytingunni sé m.a. sú að framleiðsla bænda á sauðfjárafurðum hefur farið minnkandi á undanförnum árum og verið sé að reyna að minnka fall í framleiðslunni með hærri greiðslum til bænda. Aðspurður að því hvort þetta þýði ekki að jólalambið hækki í verði til neytanda segir hann að það sé alveg ljóst að markaðurinn þoli ekki beinar verðhækkanir. Verðhækkunum verði því stillt í hóf en þess má geta að fyrirtækið hefur ekki hækkað verð á lambakjöti frá haustinu 2023 þrátt fyrir að hækkun á launum starfsmanna. Segir Ágúst Torfi að þessi hækkun til sauðfjárbænda muni því ekki skila sér að fullu í verðlagi til neytenda.
Rétt er að benda á að verðskráin hjá Kjarnafæði Norðlenska er á svipuðu róli og hjá öðrum afurðastöðvum en Bændablaðið tók nýlega saman upplýsingar um afurðaverð.
Kjarnafæði Norðlenska hf. rekur sláturhús á Húsavík og Blönduósi. Slátrun hefst á Húsavík 4. september og á Blönduósi 5. september.