Fara í efni
Fréttir

Velferðarþjónustan verði notendavænni

Fjölskyldusvið Akureyrarbæjar og búsetusvið hafa verið sameinuð í eitt velferðarsvið og tekur sameiningin gildi um áramótin.

Markmiðið með breytingunni er að bæta velferðarþjónustuna og gera hana notendavænni, auka skilvirkni, lækka rekstrarkostnað og nýta í auknum mæli möguleika stafrænnar þróunar, skv. upplýsingum frá Akureyrarbæ.

Undirbúningur hófst fyrir rúmu ári og fólst meðal annars í því að kortleggja velferðarþjónustuna, stjórnkerfið og skilgreina notendahópa og upplifun þeirra af þjónustunni. Rætt var við bæði starfsfólk og notendur en alls hafa rúmlega 150 manns komið að vinnunni á einn eða annan hátt. „Með sameiningunni skapast farvegur til þess að innleiða þjónustuferla sem sannarlega eru hannaðir út frá þörfum notandans og eru jafnframt í takti við þá stafrænu þróun sem á sér stað í samfélaginu og Akureyrarbær vill leggja áherslu á,“ segir á heimsíðu Akureyrar.

Sviðsstjóri nýs velferðarsviðs er Guðrún Sigurðardóttir.