Veiða má rjúpu 5 daga í viku – bannað að selja
Heimilt verður að veiða rjúpu á Norðausturlandi fimm daga í viku á þessu hausti, frá 25. október til 19. nóvember. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur staðfest veiðitímabilið, skv. tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Sami háttur verður hafður á og á síðasta ári: Heimilt verður að veiða rjúpu frá og með föstudögum til og með þriðjudögum. Sem sagt, alla daga vikunnar nema miðvikudaga og fimmtudaga.
„Ítrekað er að sölubann er á rjúpum og á það jafnt við um sölu til endursöluaðila og annarra,“ segir í tilkynningunni.
Ráðherra undirritaði í september stjórnunar- og verndaráætlun fyrir rjúpu og er það í fyrsta skipti sem slík áætlun er gefin út fyrir dýrastofn á Íslandi, segir á vef Stjórnarráðsins. Fram kemur að áætlunin feli í sér nýtt kerfi veiðistjórnunar þar sem landinu er skipt í sex hluta og veiðistjórnunin sé svæðisbundin. Einnig hafi verið þróuð ný stofnlíkön sem muni reikna út ákjósanlega lengd veiðitímabils á hverju svæði.
Í tilkynninguni kemur fram að stjórnunar- og verndarætlunin sé afrakstur samstarfs Umhverfisstofnunar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, Náttúrufræðistofnunar, SKOTVÍS og Fuglaverndar. Þá naut samstarfshópurinn aðstoðar frá Dr. Fred A. Johnson, bandarískum sérfræðingi í veiðistjórnun og stofnlíkanagerð.
„Þetta er í fyrsta skipti sem veiði fer fram samkvæmt nýrri stjórnunar- og verndaráætlun. Áætlunin er mikilvægur liður í því að stuðla að því að veiðar séu sjálfbærar og að rjúpnastofninn haldi sínu hlutverki sem lykiltegund í sínu vistkerfi. Með þessu nýja kerfi viljum við enn fremur stuðla að gagnsæi, fyrirsjáanleika og skilvirkni veiðistjórnunar á rjúpu svo traust geti ríkt á milli opinberra stofnana, hagsmunaaðila og almennings,“ segir Guðlaugur Þór á vef Stjórnarráðsins.
Veiðitímabilin í haust verða sem hér segir:
- Austurland 25. október – 22. desember
- Norðausturland 25. október – 19. nóvember
- Norðvesturland 25. október – 19. nóvember
- Suðurland 25. október – 19. nóvember
- Vesturland 25. október – 19. nóvember
- Vestfirðir 25. október – 26. nóvember